Undanfarnar vikur og mánuði hafa þrálátar flökkusögur gengið um forsetahjónin Guðna Th. Jóhannesson og Elizu Reid. Þau voru sögð standa í skilnaði og að þau hefðu bæði fundið ástina á ný.
Ekki fylgdi flökkusögunni hver nýfundna ást forsetafrúarinnar hafi verið en sama er ekki hægt að segja um forsetann okkar en sá var sagður hafa fundið ástina á ný í örmum starfsmanns forsetaembættisins. Þessi starfsmaður heitir Una Sighvatsdóttir – þaulreynd fjölmiðlakona sem nú fagnar 39 ára afmæli sínu á eyjunni Santorini í Grikklandi.
Tilhæfulausar flökkusögur sagði forsetaritarinn
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Nútímans hafa íslenskir fjölmiðlar reynt árangurslaust að komast til botns í umræddri flökkusögu sem fékk byr undir báða vængi, að minnsta kosti annan, þegar Guðni Th. tilkynnti mjög óvænt að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri til forseta Íslands. Nútíminn var þar engin undantekning. Haft var samband við forsetaembættið í byrjun febrúar með tölvupósti sem hljóðaði svona:
„Góðan dag,
Til þess að sýna öllum hlutaðeigandi virðingu að þá sendum við þessa fyrirspurn á ykkur, embætti forseta Íslands. Fyrirspurnin snýr að forseta Íslands – hefur hann og forsetafrúin slitið samvistum?
Eins og gefur að skilja að þá fá fjölmiðlar fjölda ábendinga og upplýsinga úr samfélaginu okkar og í stað þess að leyfa gróusögum að lifa að þá leitast fjölmiðlar eftir því að fá upplýsingar staðfestar. Þetta er dæmi um slíkt.“
Forsetaritari embættisins, Sif Gunnarsdóttir, svaraði tölvupósti Nútímans fyrir hönd forseta Íslands og sagði embættið ekki ætla að bregðast við flökkusögum: „Skrifstofa forseta Íslands sér ekki ástæðu til að bregðast við tilhæfulausum flökkusögum enda varðar þær hvorki störf forseta né embætti forseta Íslands.“
Óttinn við að vera tekin bakvið fjós og skotinn
…og þar við sat. Allavega þangað til í dag en þá birti Una stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hún segir afmælisárið hennar hafa rammast kaldhæðnislega inn. Hún hafi fyrst hætt við að gefa sjálfri sér eggheimtu- og frystingu í 38 ára afmælisgjöf og til að kóróna allt saman hafi henni borist sögur frá „ókunnugu fólki utan úr bæ“ um að hún væri orðin ólétt.
Fram að birtingu stöðuuppfærslu Unu, sem hún skrifar frá Santorini, vill Nútíminn meina að íslenskir fjölmiðlar hafi ekki þorað að skrifa um umrædda flökkusögu af ótta við að verða teknir bakvið fjós og skotnir. Sú sviðsmynd er ekki fjarri lagi enda hefur Guðni Th. verið afskaplega vinsæll forseti sem hefur á undanförnum árum unnið hug og hjörtu okkar Íslendinga.
Flökkusögur vinsælar á Íslandi
En hjá Íslendingum er þó annað sem trónir hærra á vinsældarlistanum og það eru einmitt þessar flökkusögur. Reifarakenndar sögur sem Gróa á Leiti hefur búið til og tekist að gera sjálf forsetahjónin að aðalpersónum.
Það er því komið á hreint í eitt skipti fyrir öll og það á Nútímanum. Guðni Th. og Eliza Reid eru gift og það hamingjusamlega ef marka má myndir af þeim hjónum sem birst hafa í fjölmiðlum – þá sérstaklega undanfarnar vikur þar sem þau hjónakorn hafa verið meira í fréttum en „venjulegt“ getur talist. Þá er Una Sighvatsdóttir, eftir því sem Nútíminn kemst næst, laus og liðug og hyggst eyða deginum í að slappa af á sundlaugarbakkanum – fjarri eldgosi, forsetaframboði Katrínar og flökkusögunni um hana og forseta landsins.