Á Facebook síðu Afstöðu segir að karlmaður um þrítugt hafi fundist látinn í klefa sínum á Litla-Hrauni í gærmorgun.
Ekki er talið að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti en óhætt er að segja að reiði hafi gripið um sig meðal þeirra sem hafa tjáð sig um málið.
Afstaða tekur einnig fram að sökum aðstæðna mannsins sjái félagið sig knúið til að greina frá nokkrum staðreyndum málsins í von um að stjórnvöld fari að vakna í geðheilbrigðismálum fanga.
Í tilkynningu Afstöðu segir um maðurinn hafi lokið sinni afplánun að því marki að hann var kominn á Vernd, sem er einskonar reynslulausnarferli sem er þó háð þeim skilyrðum að fangi brjóti ekki af sér meðan á á reynslulausn stendur.
Félagið segir málið vandast þegar þarna er komið því oftar en ekki þurfi aðeins ásökun til að reynslulausn sé rofin og viðkomandi færður aftur í lokað öryggisfangelsi.
Þar segir einnig að áfallið sem slík frelsissvipting geti haft í för með sér geti hrakið menn á mjög slæman stað andlega og að einstaklingar sem verði fyrir slíku ættu að vera undir sérstöku eftirliti sérfræðinga í geðheilbrigði og sálgæslu.
Afstaða segir ekki boðlegt að einungis þurfi ásökun til að menn séu teknir af reynslulausn þar sem það þýði að fólk á reynslulausn njóti ekki sömu réttinda og þeir sem frjálsir ganga.
Margir hafa tjáð sig í athugasemdum undir færslu félagsins og sumir hverjir einmitt um þetta tiltekna atriði og segir ein að alltof auðvelt sé fyrir þá sem bera illvilja til viðkomandi að nýta sér að ekki þurfi meira til að menn séu færðir aftur í fangelsi. Hún segir einnig að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem „svona brögðum“ sé beitt.
Mannlíf tók einnig viðtal við föður mannsins, Tómas Ingvason, sem segir að sonur hans hafi margbeðið um hjálp áður en hann fannst látinn í klefa sínum. Honum hafi verið sagt að bíða til mánudags.
„Nú er of seint að hjálpa honum,“ segir Tómas í viðtali við Mannlíf.
Tómas segir andlát sonar síns skrifast á fangelsismálayfirvöld og krefst rannsóknar á málinu. Hann segir Pál Winkel fangelsismálastjóra bera ábyrgð á málinu en í umfjöllun Mannlífs segir að hvorki Páll né forstöðumaður fangelsisins kannist við að hafa fengið þessar upplýsingar.
Afstaða lýkur færslunni á að senda samúðarkveðjur til aðstandenda, samfanga og fangavarða.