„Ef þú ert einhversstaðar þar sem þú sérð matseðil með ljósmyndum af matnum, þá er einhver hraðbanki þar rétt hjá sem er að fara að svindla á þér,“ segir Björn Berg en hann er fjármálaráðgjafi og kíkti í heimsókn til Götustrákanna á Brotkast. Þar ræddi hann leiðir til að spara peninga og líka hvað ætti að forðast þegar ferðast er erlendis. Til tals komu hraðbankar.
„Passaðu þig á þessu. Það eru þessir hraðbankar sem eru á mjög aðgengilegum túristastöðum. Það er verið að bjóða þér eitthvað hrikalegt gengi og þú vilt heldur ekki vera að fá slæmt gengi á kortið þitt ofan á krónuna í ofanálag,“ segir Björn.
Auddi Blö tapaði þúsundum
Í kjölfar þessarar umræðu fer Bjarki að segja frá því þegar hann heyrði Auðunn Blöndal segja sögu af viðskiptum við hraðbanka erlendis.
„Ég var að hlusta á Blökastið og Auðunn Blöndal var að ræða þegar hann tók út úr hraðbanka og hann ýtti bara á Yes og Yes og Yes. Tók út 100 þúsund krónur en út af því að hann ýtti á Yes að þá samþykkti hann að borga 17% – svo var einhver með honum sem tók út 100 þúsund krónur og ýtti bara á No og borgaði ekki neitt.“
Hér fyrir neðan er brot úr viðtalinu en hægt er að nálgast það í fullri lengd, bæði í myndskeiðs- og hljóðformi, með áskrift að hlaðvarpsveitunni Brotkast.