Hin heimsfræga YouTube-stjarna SteveWillDoIt fór í þekktan skemmtigarð í Flórída og endaði í fangelsi, þar sem lögreglan tók mjög fyndna „handtökumynd“.
SteveWillDoit, sem heitir réttu nafni Stephen Rocco Deleonardis, var handtekinn af lögreglunni í Orlando á miðvikudagseftirmiðdegi fyrir að fara inn í skemmtigarðinn Universal Studios í óleyfi eða það sem Bandaríkjamenn kalla „trespassing“ en það er fréttaveitan TMZ sem greinir frá.
Brottvísun og dulargervi
Lögreglan í Orlando segir að þeir hafi brugðist við símtali um að einstaklingur væri í óleyfi í Universal Studios. Öryggisverðir skemmtigarðsins sögðu að Steve hafi verið vísað frá garðinum í ágúst fyrir ólöglega myndatöku og í kjölfarið verið bannað að stíga fæti inn í skemmtigarðinn aftur.
Lögreglumaðurinn sem sá um handtöku YouTube-stjörnunnar staðfesti að Steve hafi áður verið handtekinn fyrir að vera í óleyfi í Universal Orlando-skemmtigarðinum en þá var hann ákærður fyrir minniháttar brot en var þá varaður við að mæta þangað aftur.
Talsmaður Steve sagði við TMZ að bannið komi til vegna þess að YouTube-stjarnan var að taka upp efni fyrir samfélagsmiðla sína. Steve var sagður hafa komið með myndavélalið með sér til að taka upp myndbönd innan garðsins, en Universal leyfði honum ekki að taka upp þar. Steve laumaðist inn með myndavél tvisvar til viðbótar og var gripinn, sem leiddi til bannsins.
Skrautleg fangamynd
Fjölskylda Steve segir að hann hafi verið gripinn með því að dulbúa sig í Universal sem útskýrir skrautlegt yfirvaraskegg hans á handtökumyndinni.
Heimildir TMZ innan úr lögreglunni í Orlando herma að af Steve hafi verið teknar tvær handtökumyndir – ein með falska yfirvaraskegginu og ein án þess – því lögreglan áttaði sig ekki á að skeggið væri falskt fyrr en eftir fyrstu myndina og var honum gert að sitja fyrir á annarri mynd áður en hann var svo látinn laus.
Steve hefur verið að birta færslur á X síðan honum var sleppt úr fangelsi en þar sagði hann meðal annars: „Ég elska fangelsi. Þegar maður er þar í stuttan tíma. Þetta var frábær tími. Einn dagur er skemmtilegur. Margt gott fólk og góður matur.“
Sagði leti ástæðuna fyrir handtökunni
Steve sagði svo þetta um yfirvaraskeggið: „Ástæðan fyrir því að ég var gripinn í Universal var vegna þess að ég var latur. Ég gerði þetta ekki nógu vel og það kostaði mig. Ég hefði getað fengið fagmann til þess að sjá um að dulbúa mig. Þetta var lexía í að vera ekki latur drullusokkur.“
Tímasetningin á þessu öllu saman er áhugaverð en Steve birti myndband frá utan Universal Studios Hollywood fyrr í þessari viku þar sem hann klæddi sig í Superman búning og gaf peninga.
Í myndbandinu finnur Steve fjölskyldu og gefur þeim 10.000 dollara á leiðinni inn í garðinn á sama tíma og hann kynnti sig sem hinn „Mexíkóska Superman“.