Þórdís B. Sigurþórsdóttir, einn af stofnendum Heilsuvonar – hagsmunasamtaka fólks með Covid-19 sprautuskaða, hefur endurnýjað ósk um að fá afrit af öllum bóluefnasamningum íslenska ríkisins við framleiðendur efnanna með vísan til nýfallins úrskurðar Evrópudómstólsins.
Dómstóllinn úrskurðaði að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi brotið lög með því að halda leyndum fyrir almenningi lykilupplýsingum úr milljarða kaupsamningum sambandsins á bóluefnum af lyfjaframleiðendum. Evrópusambandið hafði nefnilega afmáð nánast allar upplýsingar úr umræddum samningum með svörtum yfirstrikunum þegar það birti samningana árið 2022.
Íslenska ríkið notaði sömu rök
Íslenska ríkið byggði á sambærilegum rökum og þeim sem framkvæmdastjórn ESB gaf út varðandi bóluefnasamningana en þeim rökum hefur nú verið með öllu hafnað. Úrskurður dómstólsins er í raun áfellisdómur yfir vinnubrögðum formanns framkvæmdastjórnar ESB en þar situr Ursula von der Leyen. Hún leiddi samninganefnd ESB í samningaviðræðum sambandsins við forstjóra Pfizer, Albert Bourla.
Það sem þykir hvað athyglisverðast við þetta allt saman er að innri endurskoðendum ESB var hafnað aðgangi að smáskilaboðum sem gengu á milli þeirra der Leyen og Bourla í aðdraganda umræddra viðskipta. Ísland „naut góðs“ af samningi ESB við bóluefnaframleiðendur en hann var talinn afar hagstæður lyfjaframleiðendum. Það þykir því ansi líklegt í ljósi nýfallins dóms Evrópudómstólsins að íslenska ríkið geti ekki falið sig á bakvið þau rök sem heilbrigðisráðuneytið studdist við þegar það hafnaði kröfu Þórdísar í ágúst 2021.
Neyðast til að birta leynisamninga
„Verður ekki fram hjá því litið að íslenska ríkinu mun líklega reynast nauðsynlegt að festa kaup á fleiri bóluefnaskömmtum gegn COVID-19,“ sagði úrskurðarnefnd upplýsingamála þá og bætti um betur og tók fram að ef samningarnir yrðu birtir gætu lyfjafyrirtækin borið því við að Ísland hafi ekki staðið við sinn hluta samninganna og það geti breytt afhendingu og samningsstöðu Íslands til hins verra.
Nú hafa þau rök hinsvegar verið dæmd dauð og ógild af sjálfum Evrópudómstólnum og má því draga þá ályktun að íslenska ríkið, líkt og önnur í Evrópu, neyðist til þess að birta þessa umdeildu samningana sem gríðarleg leynd hefur hvílt yfir fram að þessu.