Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna manns sem var með almenn leiðindi í lyfjaverslun. Ekki fylgir sögunni hvaða lyfjaverslun var um að ræða en samkvæmt dagbók lögreglunnar var tilkynnt um atvikið til lögreglustöðvar 1 en sú stöð heldur utan um austurbæ, vesturbæ, miðborgina og Seltjarnarnes.
Þar kemur fram að hann hafi verið á bak og brott þegar lögreglumenn bar að garði.
Þetta er hin daglega dagbók lögreglunnar sem Nútíminn, ásamt annarra miðla á Íslandi, birta hvern einasta dag – stundum tvisvar á dag því dagbókin nær yfir tólf klukkutíma verkefni embættisins.
Náðist vonandi á myndavélar
Þá var tilkynnt um einn þjófnað en um er að ræða dagbók sem nær frá 17:00 í gær til 05:00 í morgun. Þjófnaðurinn snérist um ferðatösku á hóteli í miðborginni. Þjófurinn er ófundinn en ætla má að öryggismyndavélakerfi hótelsins komi til með að aðstoða lögreglu við rannsókn þjófnaðarins.
Þá var tilkynnt um mann vegna æsings og ónæðis í miðborginni en sá var vistaður í fangageymslu. Annar var vistaður skömmu síðar á sama gangi en sá hafði í hótunum við gesti veitingastaðar í miðborginni.