Dómari við eitt af efri dómsstigum Bretlands sem kallaður er „High Court“ staðfesti á mánudag neyðarbann bresku ríkisstjórnarinnar á kynþroskablokkurum (e. puberty blockers) og sagði ákvörðun sína byggða á rannsókn sem sýndi að slík lyf væru ekki aðeins hættuleg þeim sem þau taka heldur hefðu þau einnig takmörkuð áhrif og kostir þess væru afar fáir.
Dómarinn Beverley Lang sagði að nefnd sem var skipuð af Bresku heilbrigðisþjónustunni (NHS) hefði komist að þeirri niðurstöðu að þau rök sem styðst væri við vegna meðferða á börnum með kynmisræmi og/eða kynama væru afskaplega veik rök og að ungt fólk hafi lent í „óveðri félagslegrar umræðu.“
Heilbrigðisráðherra fagnar niðurstöðunni
Washington Post greinir frá og segir að hópurinn TransActual og ungmenni, sem ekki má nefna vegna dómsúrskurðar, reyndu að mótmæla ákvörðun fyrrum heilbrigðisráðherra, Victoriu Atkins, um að banna ávísun hormóna sem geta stöðvað þróun kynþroska. Þau voru á tímabili notuð í Bretlandi og áttu að hjálpa börnum með kynama með því að gefa þeim meiri tíma til að íhuga valkosti sem meðal annars gátu falið í sér kynleiðréttingu.
Dómarinn hafnaði kröfu hópsins og sagði að bannið væri löglegt en það takmarkar útgáfu umræddra hormónalyfja utan klínískra rannsókna og kemur einnig í veg fyrir að þau séu ávísuð af einkaaðilum. Það var í fyrra sem NHS hætti að ávísa þessum hormónum og gaf það út að ekki væru til staðar nægileg gögn sem sýna fram á kosti og galla þeirra.
Heilbrigðisráðherra Bretlands, Wes Streeting, fagnaði úrskurðinum, en sagði þó að þetta væri vandmeðfarið mál. Þá sagði Streeting að hann væri að vinna með NHS að setja upp klíníska rannsókn á umræddum hormónameðferðum.