Auglýsing

Leiðsögumenn slógust uppi á jökli út af aðgengi að íshellinum sem hrundi: „Peningagræðgin kostaði mannslíf“

Starfsmenn tveggja ferðaþjónustufyrirtækja sjást slást og hnakkrífast á myndskeiði sem Nútíminn hefur undir höndum. Myndskeiðið er tekið á Breiðamerkurjökli við gangamunninn að íshellinum sem hrundi í gær með þeim afleiðingum að bandarískur karlmaður lést og eiginkona hans slasaðist alvarlega.

Ferðaþjónustufyrirtækin sem þarna starfa eru sögð drifin áfram af græðgi og að þar lendi öryggi ferðamanna undir hagnaðardrifnum en stórhættulegum ferðum…

Átök á milli starfsmanna ferðaþjónustufyrirtækja á jöklinum og í Vatnajökulsþjóðgarði hafa nánast verið daglegt brauð undanfarnar vikur og mánuði þar sem rifist er um „einkaleyfi“ á notkun íshelllisins sem fyrirtækið Niflheimar ehf, betur þekkt sem Glacier Mice, bjó til.

„Villta vestrið“ á jöklinum

Íshellirinn sem hrundi hefur verið mikið þrætuepli hjá stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins og líkt og myndskeiðið sýnir hefur komið til átaka á milli starfsmanna fyrirtækjanna þar sem þau virðast til skiptis kasta eign sinni á íshellirinn sem þó enginn á lögum samkvæmt enda innan Vatnajökulsþjóðgarðs.

Allt notað til þess að selja miða eins og sést á þessari mynd sem tekin var við Jökulsárlón.

Orðið þjóðgarður ætti að segja allt sem segja þarf. Hann er eign almennings. Það virðist þó skipta umrædd ferðaþjónustufyrirtæki engu máli enda er rætt um Breiðamerkurjökul sem „villta vestrið“ þegar það kemur að því að hagnast á ferðamönnum sem hingað koma til lands í leit að óspilltri náttúru og ævintýrum á heimsmælikvarða.

Fyrirtækið Ice Pic Journeys var með hóp ferðamanna í íshellinum í gær þegar hann hrundi með skelfilegum afleiðingum. Hluti hópsins hafði keypt ferðina í gegnum Guide to Iceland, sem er eins konar markaðstorg fyrir íslenska ferðaþjónustu, og svo einhverjir við Jökulsárlón þar sem þessi fyrirtæki hafa komið upp skiltum og bifreiðum þar sem lausir miðar í íshellaferðir eru seldir.

Hagnaðardrifnar en stórhættulegar ferðir

Þar er viðskiptaháttum og baráttu þessara fyrirtækja einnig líkt við „villta vestrið“ en eins og sjá má á ljósmyndum sem Nútíminn hefur undir höndum eru allt frá auglýsingaskiltum og heilu bifreiðunum beitt í markaðssetningu þar sem bitist er um þá ferðamenn sem þar koma.

Hér má sjá eina af þeim auglýsingum sem mæta ferðamönnum við Jökulsárlón.

Þeir sem Nútíminn hefur rætt við í dag segja að það hafi aðeins verið tímaspursmál hvenær eitthvað skelfilegt myndi gerast uppi á Breiðamerkurjökli. Ferðaþjónustufyrirtækin sem þarna starfa eru sögð drifin áfram af græðgi og að þar lendi öryggi ferðamanna undir hagnaðardrifnum en stórhættulegum ferðum líkt og þeim sem farnar eru upp á jökla og inn í manngerða íshella yfir sumartímann.

Slíkt er stórhættulegt en samkvæmt heimildum Nútímans hefur Vatnajökulsþjóðgarður sett reglur er varða slíkar ferðir en að stærstu fyrirtækin hafi ítrekað virt þær að vettugi.

„Peningagræðgin kostaði mannslíf,“ sagði einn heimildarmanna Nútímans sem þekkir vel til á svæðinu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing