Eldgosinu norðan við Stóra-Skógfell er lokið. Gosið stóð yfir í um 14 daga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Þetta var þriðja lengsta eldgosið af þeim sex sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni frá því í desember 2023. Gosið sem hófst um miðjan mars stóð í um 54 daga og eldgosið sem hófst í lok maí stóð yfir í um 24 daga.
Út frá líkanreikningum er ljóst að aldrei hefur jafn mikið magn kviku komið upp á yfirborðið frá því að jarðhræringarnar hófust haustið 2023. Ekki hefur tekist að mæla umfang hraunbreiðunnar vegna veðurs og því liggja endanlegar tölur um rúmmál kviku ekki fyrir.
Landris mælist í Svartsengi og er kvika því farin að streyma inn í kvikuhólfið að nýju. Of snemmt er að fullyrða um hraða kvikusöfnunarinnar, en fyrstu líkanreikningar benda til þess að hann sé svipaður og áður.