Í kvöldfréttatíma Stöðvar 2 í kvöld var greint frá örlögum ungs flugmanns hjá Icelandair en málið hefur strax vakið mikinn óhug hjá almenningi.
Vísir greindi frá því að Sólon Guðmundsson hafi verið 28 ára þegar hann lést 25. ágúst síðastliðinn. Hann hafði þá starfað sem flugmaður hjá Icelandair í um sex ár. Í apríl síðastliðnum lagði Sólon fram kvörtun til mannauðsdeildar Icelandair vegna eineltis, sem hann taldi sig hafa orðið fyrir af hálfu tveggja samstarfskvenna.
Greint var frá því í fréttinni að hið meinta einelti hafi einkum falist í einhliða frásögnum kvennanna af stuttu sambandi Sólons við aðra þeirra. Icelandair er að lokum sagt hafa slegið eineltiskvörtunina út af borðinu, þar sem ekki væri hægt að meina konunni að tjá sig um sína upplifun.
Síðar hafi Sólon aftur verið kallaður á fund mannauðsdeildar Icelandair þar sem honum hafi verið tjáð að komnar væru fram nýjar ásakanir á hendur honum. Þann 23. ágúst, daginn eftir fundinn, sagði Sólon upp störfum hjá Icelandair í tölvupósti. Tveimur dögum síðar fannst hann látinn.
Fjölskylda Sólons hefur nú lagt fram beiðni til lögreglu um að andlát hans verði rannsakað þar sem hann féll fyrir eigin hendi eftir að umrædd mál tengd honum voru tekin fyrir innan fyrirtækisins. Fjölskylda hans telur mörgum spurningum enn ósvarað í málinu og að miklar brotalamir hafi verið á málsmeðferðinni innan Icelandair.
Metoo byltingin gengið alltof langt
Hödd Vilhjálmsdóttir, talsmaður fjölskyldunnar segir í pistli á facebook í kvöld að MeToo byltingin hafi verið góð að mörgu leyti en að mál Sólóns hafi gengið alltof langt. „Þegar menn sjá líf sitt þannig að ef þeir lenda í aðstæðum á móti konum, þar sem orð eru á móti orði, eigi þeir aldrei séns. Það hlýtur að vera markmið að okkur öllum líði vel. Ég fæ ekki séð að við komum betri drengjum til manns ef þeir fá þau skilaboð að þeir séu alltaf álitnir gerendur í öllum aðstæðum.“
Segir Hödd og bætir því við að hún telji samfélagið þurfa að viðurkenna að til séu bæði góðar konur og góðir karlmenn en að svo séu skemmd epli inni á milli og stundum taki fólk vondar ákvarðanir.
„Sólon Guðmundsson var 28 ára. Engin ákæra, engin kæra, engin kvörtun…nema kvörtun í blálokin – þegar búið var að gefa grænt á að slúðra um hann eins og hvern lysti.“
Að lokum birtir Hödd hluta úr kveðjubréfi Sólons sem var svo hljóðandi:
„Ég er ekki að taka mitt eigið líf því ég veit upp á mig sökina og skammast mín. Ég er að taka mitt eigið líf því ég treysti mér ekki til að lifa lengur og þegar maður hefur ekki vonina né viljann þá er vonlaust að halda áfram. Mig langar ekki að deyja en èg held að þetta myndi alltaf koma í veg fyrir að ég gæti átt lífið sem mig langar. Ég vona að eitthvað gott komi úr andláti mínu, því lífið var víst til lítils”
„Takk fyrir hjálpina”.