Leikritið Nauðbeygð messa nýrra tíma sem sýnt var í Háskólabíói í sumar verður endursýnt þann 6. október næstkomandi í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Verkið er skrifað af ungskáldinu Einari Baldvini Brimar sem útskrifaðist í fyrra með gráðu í heimspeki og lögfræði.
Blaðamaður Nútímans settist að þessu tilefni niður með þessum áhugaverða unga manni og spurði hann nánar út í verkið sem hann hann fullyrðir að sé það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en leikverkið fer eftir óskrifuðum reglum sem gilda í kirkjulegu messuhaldi en ekki í leikhúsi.
„Já það er prestur sem mun setja messuna, leikverkið er flutt sem hluti af skrautbúnu messuhaldi og í lok hennar er að sjálfsögðu sjálf prédikunin“ segir Einar Baldvin kíminn. Nauðbeygðar messur tilheyra ekki flokki guðsandarmessa að sögn Einars heldur er um að ræða samfélagslegar messur sem vilja boða breytingar á þjóðfélagsháttum okkar. „Þannig er um að ræða fyrstu opinberu samkeppnina við Þjóðkirkju Íslands um messuaðsókn Íslendinga, en í þetta sinn er öllum boðið – meira að segja hinum trúlausu!“ bætir Einar við.
Einar segir leikverkinu ætlað að fjalla um þá samfélagslegu skekkju sem hefur grasserast í samfélaginu með tilkomu samfélagsmiðla þar sem allir virðast vera hamingjusamir, árangursríkir og ríkir en samt hefur þunglyndi og kvíði aldrei mælst meiri, verðbólga er í hámarki og sala svefntafla og áfengis í sögulegri uppsveiflu. Markmið nauðbeygðrar messu nýrra tíma er að endurspegla þessa samfélagslegu skekkju og prédika breytta og nýja tíma í samfélagi þar sem öllum á að líða vel þó engum líður þannig.
En um hvað fjallar leikritið? „Sagan fjallar um Kláus Alfreð Alfreðsson, þunglyndan látbragðsleikara, sem hefur gjörsamlega fengið nóg af sýndarmennsku nútíma samfélagsins, allt þar til að sálfræðingurinn hans, Kleópatra Ósk, færir honum töfraformúluna til að enda kvöl sína. Þá virðist Kláus loksins aftur öðlast frið innan um metorðagirni, sýndarmennsku og hroka samferðarmanna sinna.“ Segir Einar Baldvin.
Leikritinu er leikstýrt af Vigni Rafn Valþórssyni og mun úrvalalið ungra og efnilegra leikara sjá um að túlka hinar fjölskrúðugu persónur sem prýða messuna.
Einar Baldvin segir einkunnarorð Nauðbeygðrar Messu Nýrra Tíma vera skýr: „Fyrirgef oss og megi hinir viðkvæmu og huglausu sækja messu í Þjóðkirkju Íslands og láta messuna algjörlega framhjá sér fara!“