Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í gær konu sem hafði stungið mann með hnífi í miðborginni. Var hún færð í fangageymslu vegna rannsóknar málsins en samkvæmt upplýsingum frá embættinu eru áverkar mannsins ekki taldir lífshættulegir.
Einn einstaklingur var handtekinn af laganna vörðum á þeirri vakt sem lauk núna klukkan 05:00 í morgunsárið en sá hafði verið eftirlýstur af öðru embætti og hann því vistaður í fangageymslu „þar til hægt verður að ræða við hann“ eins og fram kemur í dagbók lögreglunnar sem nær yfir verkefni hennar frá 17:00 í gær og þar til 05:00 í morgun.
Fara í heimsóknir vegna eftirlits með skotvopnum
Þá fór lögreglan í eftirlit vegna vörslu og meðferð skotvopna en embættið hafði gefið það út fyrir nokkrum vikum að slíkum heimsóknum myndi fjölga. Í kjölfar eftirlitsins voru skotvopn „og nokkur önnur vopn“ haldlögð og segir í dagbókinni að málið sé í rannsókn.
Nokkrir einstaklingar voru handteknir ýmist vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Einhverjir þeirra voru án ökuréttinda og virðist sem svo, ef litið er á dagbók lögreglunnar, að þeim fari fjölgandi – það er að segja þeim einstaklingum sem keyra undir áhrifum og það án ökuréttinda.
Þá þurftu laganna verðir að brjóta sér leið inn á heimili á höfuðborgarsvæðinu svo hægt væri að koma þar einstaklingi til aðstoðar eða eins og segir í dagbók lögreglunnar: „Sjúkralið aftur aðstoðað í útkalli. Lögregla braut sér leið inn á heimili svo sjúkraflutningamenn gætu veitt aðhlynningu.“