Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning í gærkvöldi um hættulega staðsetta bifreið í hverfi 110 en þegar lögreglan mætti á vettvang komi í ljós að þar var ökumaður að skipta um dekk á bifreið sinni.
Laganna verðir voru fljótir að stökkva til og aðstoðuðu hann með því að tendra bláu ljósin á bifreið sinni honum til varnar á meðan hann skipti um dekkið. Slæm færð og lélegt skyggni í bland við hraða umferð skapaði hættulegar aðstæður en með þessu uppátæki lögreglunnar gátu þeir tryggt aðstæður eins best og var á kosið.
Þetta kemur fram í dagbók embættisins en verkefnin sem um ræðir ná frá 17:00 í gær og þar til 05:00 núna í morgunsárið.
Þá var einn ökumaður tekinn á 140 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund. Sá var kærður fyrir of hraðan akstur og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Sá á von á feitri sekt vegna málsins.
Einn var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og þá var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 105. Tvær bifreiðar voru óökufærar eftir óhappið en sem betur fer urðu engin slys á fólki.