„Ég hef áhuga á því að hjálpa Íslandi að finna út hvaða reglugerðaumgjörð virkar best og ég held að Íslandi eigi að gera þetta,“ segir Magnús Þórsson, prófessor við háskólann Johnson & Wales í Rhode Island-ríki í Bandaríkjunum, í viðtali við Hampkastið, umræðuþátt Hampfélagins, en hann kennir frumkvöðlastarf í kannabisgeiranum, nám sem er einstakt á heimsvísu. Magnús segir að stjórnvöld ættu að ráðast í lögleiðingu á kannabis enda muni það stuðla að sjálfbærum atvinnurekstri, nýsköpun og ótal tækifærum fyrir Íslendinga, til að mynda í gegnum skattheimtu af greininni.
Í frumkvöðlanáminu er farið djúpt ofan í lagalega, félagslega og viðskiptalega þætti kannabisframleiðslu og sameinar það vísindi, viðskipti og nýsköpun. „Ástæða þess að ég hannaði þetta nám er sú að ég hef verið að stúdera sjálfbærni og verið að kenna sjálfbærni og sá að það var margt sambærilegt þegar litið er til sjálfbærni og lyfjahamps. Það voru svipuð öfl sem börðust á móti þróun í bæði sjálfbærni og lögleiðingu, mikið var um rangupplýsingar og ég sá að þetta bitnaði helst á viðkvæmum samfélagshópum. Einnig sá ég að umfangið var að aukast mikið og ég sá tækifæri til að mennta fólk í þessum geira.“
Byggir á rannsóknarvinnu og möguleikum í kannabisviðskiptum
Námið byggir á umfangsmikilli rannsóknarvinnu og skilningi á möguleikum í kannabisviðskiptum og segir Magnús að víða um heima vanti verulega aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning um kannabis sem byggðar eru á vísindastaðreyndum. Hvað varðar stöðuna á Íslandi segir Magnús að stjórnvöld verði að horfa á málið frá öllum hliðum. „Áfengislöggjöfin á Íslandi er þannig að skatturinn sem lagður er á áfengi á að dekka kostnaðinn við að leyfa verslun með áfengi því að það er afleiddur kostnaður sem fylgir því. En kostnaðurinn við að leyfa verslun með kannabis er enginn. Það hefur ekki kostað þjóðfélagið neitt. Það hafa ekki verið nein dauðsföll og fólk er ekki að keyra undir áhrifum. Það hefur ekki sama kostnað í för með sér og er þar af leiðandi hagkvæmara að selja kannabis en áfengi.“
Spurður nánar út í þá fullyrðingu að fólk aki ekki undir áhrifum kannabis í Bandaríkjunum segir Magnús: „Ef við tölum um ranghugmyndir þá var þetta ein þeirra, að það yrðu bara allir að keyra undir áhrifum og slys úti um allt. En það hefur ekki orðið nein aukning á því að fólk keyri undir áhrifum.“
Gerir lífið á Íslandi bjartara og betra
Magnús segir að rækta eigi lyfjahamp á Íslandi og nota arðinn af framleiðslunni og sölunni í þágu þjóðfélagsins. „Þetta er skapandi iðngrein. Þetta er auðveldara en refarækt og auðveldara en margar hliðarbúgreinar. Hampurinn hefur mörg not og ég held að það væri gott í þágu Íslands að ríkisstjórnin myndi horfa á þetta í heild sinni. […] Það er ekki erfitt að gera samanburð, það er svo mikið af upplýsingum frá Bandaríkjunum, um það hvað hefur virkað vel og hvað ekki. Við erum með frábæra stétt lækna og hjúkrunarfólks sem þarf að taka þátt í þessu og allir hagsmunaaðilar þurfa að vera samstiga til að stuðla að iðnaði sem er sjálfbær. Með góðri umgjörð þá ætti þetta að vera Íslandi í hag.“
Magnús segir ljóst að kannabis sé ekki fyrir alla að nota en engu að síður geti efnið hjálpað mörgum. „Það eru til þjóðfélagstölur þar sem kannabis er löglegt og þar hafa aðstæður í þjóðfélaginu batnað. Fólk getur verið lengur í vinnu vegna þess að þetta linar þjáningar þeirra. Fólk hefur öðlast sjálfstraust til að vera lengur í vinnu undir lok starfsævinnar því það er hægt að vera með þetta í verkjastillandi formi sem hefur ekki vímuáhrif, linar bara þjáningar. Og það er betra fyrir íslenskt þjóðfélag að hafa fólk í vinnu lengur. […] Kannabis er ekki fyrir alla og ekkert undralyf en ef þetta er notað samkvæmt ráðleggingum lækna þá getur kannabis gert lífið á Íslandi bjartara og betra. […] Viljum við eyða peningum í löggæslu eða gera þetta löglegt og njóta góðs af tekjunum.“
Þáttinn má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan, en einnig má hlusta á hann á öllum streymisveitum.