Össur Skarphéðinsson segir Ingu Sæland, formann flokksins, valdspilltan leiðtoga sem stundi valdníðslu. Össur er þá að tala um þær sviptingar í flokknum sem ollu því að bæði Jakob Frímann og Tómas, sem er betur þekktur sem Tommi á Búllunni, voru svo gott sem settir út í kuldann og aðrir fengnir í þeirra stað.
„Inga Sæland talar sig móða um skort á lýðræði – nú síðast þegar starfsstjórn var í myndun – en á sama tíma tekur hún sér alræðisvald innan Flokks fólksins, þverbrýtur reglur hans og lög og rekur þingmenn úr framboði af því þeir dansa ekki algerlega eftir hennar höfði,“ segir Össur á Facebook-síðu sinni í dag en færslan hefur vakið þónokkra athygli enda lætur hann stór orð falla.
Líkir þessu við Ítalíu fyrir hundrað árum
„Opinber brottrekstur Jakobs Frímanns (og Tomma í Búllunni) úr framboði er ekki aðeins ólýðræðislegur gjörningur hjá leiðtoga sem alltaf er með túlann fullan af lýðræðishjali heldur hreinasta valdníðsla af hennar hálfu. Það sést gjörla þegar rennt er yfir einföld og skýr lög Flokks fólksins á heimasíðu hans.“
Hann segist furða sig á því að svona gerist á Íslandi á þriðja tug 21. aldarinnar og segir það með hreinum ólíkindum. Össur segir svona ekki hafa gerst nema kannski á Ítalíu „fyrir hundrað árum – en ekki hér og nú.“
„Fjölmiðlar, sem eru helsta aðhaldstæki gegn valdspilltum leiðtogum, hljóta að skýra hvernig þetta samræmist lögum flokksins og hvort verjanlegt sé að flokkur undir slíkri stjórn fái tugmilljónir frá skattborgurum ár hvert í rekstrarstyrki.“