Auglýsing

Tveir karlmenn læstu sig inni á salerni í tvígang: „Hvorki halda heimili né hafa atvinnu“

Tveir karlmenn læstu sig inni á salerni verslana í tvígang: „Hvorki halda heimili né hafa atvinnu“

Frekar óvenjulega dagbókarfærslu má lesa eftir vakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en um er að ræða verkefni embættisins frá 05:00 í morgun og þar til 17:00 í dag en þar segir að tveir menn „sem hvorki halda heimili né hafa atvinnu“ hafi verið búnir að læsa sig inni á kvennasalerni verslunar í miðborg Reykjavíkur og þar höfðu þeir verið í tvær klukkustundir.

„Lögreglumenn komu á vettvang og gerðu þeim að yfirgefa salernið og verslunina. Innan við klukkustund síðar voru þeir aftur búnir að læsa sig inni á salerni á öðrum stað í sama hverfi. Mennirnir voru því handteknir og færðir á lögreglustöð þar sem þeir voru vistaðir í fangaklefa vegna málsins og þar til þeir verða í ástandi til að sýsla með sjálfa sig,“ segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en 123 mál voru skráð í LÖKE-kerfi lögreglunnar eftir þessa tólf tíma vakt.

Næturfrostið er farið að segja til sín en í dagbók lögreglunnar hvetur hún ökumenn til að gæta sérstakrar varúðar í morgunumferðinni og aka ávallt eftir aðstæðum.

„Eðli málsins samkvæmt er mjög mikilvægt fyrir ökumenn að hafa gott útsýni þegar þeir eru við akstur bifreiða og því þarf að skafa hélaðar rúður með fullnægjandi hætti áður en haldið er af stað. Þeir sem ekki gera það eiga í hættu á að fá sekt fyrir trassaskapinn svo ekki sé minnst á að skertu útsýni fylgir aukin hætta á því að valda umferðarslysi sem er vonandi eitthvað sem allir vilja forðast.“

Til að renna stoðum undir þessar áhyggjur lögreglunnar þá stendur í dagbókinni að umferðarslys hafi átt sér stað í miðborginni í morgunsárið en þar voru þrjár bifreiðar skemmdar eftir óhappið. Eina af þeim þurfti að draga af vettvangi með dráttarbifreið en þar er hálka á akbrautinni talin hafa spilað stórt hlutverk.

Þá var ekið á gangandi vegfaranda í hverfi 200 í morgun. Eitt ungmenni slasaðist og var það flutt á bráðamóttökuna til frekari aðhlynningar. Það sem vekur athygli í þessu máli er sú staðreynd að ökumaður bifreiðarinnar var kærður fyrir að hafa ekki skafað rúðurnar nægilega vel.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing