Auglýsing

Áslaug Arna varð fyrir árás No Borders-meðlima: Hrækti á hana og öskraði

„Ég var að funda með konu á Te og kaffi og þá tryllist einstaklingurinn á kaffihúsinu sem fór fyrir eða var að starfa með No Borders. Hann öskrar þannig að ég gekk í burtu í staðinn fyrir að taka einhvern sérstakan slag, ég reyndi auðvitað að svara fyrst og svona en stundum er bara best að ganga í burtu. Sami einstaklingur reyndi svo að hrækja á mig þegar ég var úti að hlaupa í frítíma mínum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra sem var gestur Frosta Logasonar í „Spjallinu“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast.

Hún ræddi meðal annars sínar áherslur í stjórnmálum, ríkisstjórnarsamstarfið sem nú er sprungið og komandi kosningar. Áslaug segir frá því þegar hún sem þáverandi dómsmálaráðherra varð fyrir árás mótmælanda vegna breytinga sem hún vann þá að í útlendingamálum. Hún var þá hrakin út af kaffihúsi af meðlimi No Borders samtakanna sem hrækti á hana og öskraði. Þá var einnig mótmælt fyrir utan heimili hennar, hrópað var að henni úti á götum og segir hún ríkisútvarpið hafa tekið fullan þátt í að klína á hana útlendingaandúð og öðrum ógeðfelldum merkimiðum.

Gleymt og grafið í dag

„Þetta er auðvitað gleymt og ég er ekki að kvarta yfir þessu. Ég valdi mér að fara í pólitík og ég tek slaginn fyrir mál.“

Frosti segir þá að það sé nú full ýkt að stjórnmálamenn þurfi að sitja undir því að á þá sé hrækt og öskrað.

„Já, auðvitað hefði ég átt að kæra það en á sama tíma þá er bara mikilvægt að rifja þetta upp af því að fólk segir að við hefðum verið of sein. Þarna var enginn að styðja við málið. Þarna voru engir flokkar að hjálpa til við að klára þetta í þinginu og þarna var ekki vilji margra þingmanna að þetta kláraðist eða kæmist í gegnum þingið. Samstarfsflokkar okkar voru vissulega ekki að hjálpa til,“ segir Áslaug Arna en Frosti bendir henni þá á að Miðflokkurinn hafi stutt málið.

„Já þeir gerðu það með kannski einum í þingnefndinni en það hefði ekki dugað til.“

Mjög áhugavert viðtal sem við hér á Nútímanum birtum stutt myndskeið úr hér fyrir neðan með góðfúslegu leyfi en hægt er að horfa á og hlusta á það í fullri lengd með áskrift að Brotkast.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing