Aðgerðarsinninn Paul Watson, sem var einn af fyrstu drifkröftum Greenpeace og stofnandi Sea Shepherd-samtakanna, var í gær dæmdur í áframhaldandi gæsluvarðhald á Grænlandi en þar hefur hann þurft að dúsa síðan í júlí á þessu ári.
Watson var leiddur fyrir dómara í Nuuk í gær en margir höfðu veðjað á að honum yrði sleppt eftir að hafa setið í gæsluvarðhaldi í yfir 100 daga en hann var handtekinn 21. júlí af þarlendum stjórnvöldum vegna alþjóðlegrar handtökuskipunar sem Japanir gáfu út á hendur honum. Japanir saka Watson um að hafa skemmt hvalveiðiskip á Suðurskautslandinu árið 2010 og slasað mann þegar hin meintu skemmdarverk eiga að hafa átt sér stað.
Aðgerðarsinninn var staddur í Nuuk til að setja bensín á skip sitt þegar hann var handtekinn en Japanir hafa lagt hart að Dönum að fá hann framseldan. Það þykir ljóst að ef framsalið verður samþykkt og Watson fluttur til Japans að allar líkur séu á að hann fái að dúsa þar í fangelsi það sem eftir lifir ævi hans enda hefur hann verið þyrnir í augum japanskra stjórnvalda í tugi ára.
Watson segist saklaus og hefur óskað eftir hæli í Frakklandi en samkvæmt erlendum fjölmiðlum hefur þeirri ósk verið vel tekið. Þá hefur forseti Frakklands hvatt danska ráðamenn til þess að sleppa Watson en sá þrýstingur hefur enn ekki borið ávöxt.
Óvinur Íslands frá 1986
Paul Watson kom mikið við sögu í Íslenskri hvalveiðisögu vegna aðgerða sinna í gegnum Sea Shepherd samtökin. Árið 1986 vakti hann heimsathygli þegar hann stóð fyrir aðgerðum sem ollu verulegum skemmdum á hvalveiðiiðnaðinum á Íslandi og hefur hann síðan þá oft verið kallaður „Óvinur Íslands númer eitt.“
En hvað gerðist árið 1986 í Reykjavík? Watson og áhöfn hans brutu sér leið um borð í tvö íslensk hvalveiðiskip í Reykjavíkurhöfn og sökktu þeim. Skipin voru í höfn, mannlaus og ekki í notkun. Þeir opnuðu sjólúgur sem fylltu skipin af vatni og sökktu þeim á hafnarbotninn. Markmiðið var að lama hvalveiðigetuna hjá Íslendingum. Að auki eyðilögðu þeir vinnslustöð fyrir hvalkjöt í Hvalfirði.
Þessi aðgerð vakti mikla reiði og var augljóslega ólögleg. Watson hafði hins vegar alltaf beitt róttækum aðferðum til að vekja athygli á þeim málefnum sem hann barðist fyrir, og taldi nauðsynlegt að grípa til slíkra aðgerða til að koma í veg fyrir hvalveiðar. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda voru hörð og var Watson sakaður um hryðjuverk. Gefin var út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum, og Watson hefur alltaf verið umdeildur á Íslandi síðan þá.