Auglýsing

Davíð Bergmann vinnur með börnum og segir íslenska kerfið á rangri leið: „Fólk í jakkafötum sem borðaði vínarbrauð og drakk kaffi“

„Ég kem af gamla skólanum. Veistu hver var besta meðferðin sem ég fékk þegar ég var unglingur? 78 ára gamall bóndi sem kenndi mér að vinna – sem heyrði mig og sá. Ég man ekkert eftir þessum sálfræðiprikum sem ég sat hjá og voru að spyrja: „Hvernig líður þér?“ – þá fór ég bara í eitthvað leikrit sem heitir kamelljónið. Þá fellur maður bara inn í umhverfið og segir það sem maður á að segja,“ segir Davíð Bergmann Davíðsson sem hefur unnið með börnum í vanda frá árinu 1994. Hann hefur mikla reynslu sem nýtist honum í starfi og deildi því með Kiddu Svarfdal í hlaðvarpsþættinum „Fullorðins“ á hlaðvarpsveitunni Brotkast hvað hann sér sem lausnina á fjölþættum vanda ungmenna í dag.

„Ég ætla að nota orðin hjá vini mínum honum Simma. Við þurfum að vera í skynsemishyggju og raunhyggju. Hver er raunveruleikinn? Við þurfum kannski að fara svolítið í þetta gamla. Í Fjölsmiðjunni þar sem ég er að vinna með einstaklinga þá er ég ekkert mikið að spjalla við þau um eða kafa ofan í naflann á þeim og spyrja hvað það er við lífið sem er erfitt. Ég er þarna til að heyra þau og sjá. Þú veist hvað ég meina þegar ég segi að kafa í naflann. Þetta er ekki vettvangurinn til þess að ræða þannig hluti. Þegar ég vann í Mótorsmiðjunni í gamla daga þá komu oft strákar til mín þangað frá brottnum heimilum og með allt í steik í kringum sig. Hvenær var vettvangurinn til að fara að tala um hlutina – var það þegar við sátum við skrifborð? Nei. Það var þegar þeir voru kannski að skrúfa í hjóli og þá kom kannski upp: „Pabbi lemur mömmu“ – þá var allt í einu kominn vettvangur til að ræða hlutina,“ segir Davíð Bergmann sem telur þessar formlegu viðtalsmeðferðir gera lítið gagn – að minnsta kosti miklu minna gagn en samtal tveggja einstaklinga á milli við aðstæður þar sem hvorugur aðilinn er skyldugur til þess að ræða hlutina.

Kaffilepjandi og jakkafataklæddir sérfræðingar

„Ég held að ég hafi farið í fyrsta viðtalið ´94 og þá að tala um nákvæmlega það sama og við erum að gera núna og það hefur ekkert breyst. Ég sat í einni nefnd 1999 – þá hafði Margrét Frímannsdóttir samband við mig sem var þá þingmaður. Hún hafði þá potað mér í nefnd um unga afbrotamenn – talaði við Þorstein Pálsson þáverandi dómsmálaráðherra og ég fékk að sitja í þessari nefnd. Ég gleymi því ekki þegar ég mætti. Ég kom þarna inn og þarna sátu ráðuneytisstjórar einhverjir, forstjóri Barnaverndarstofu og eitthvað fólk í jakkafötum sem borðaði vínarbrauð og drakk kaffi og niðurstaðan var að fjölga um eitt rými í Háholti sem fangelsisúrræði. Vel að merkja. Háholt? Af hverju í ósköpunum er það batterí ekki opið. Það er sérhannað húsnæði fyrir unga drengi í afbrotum. Það er lokað.“

„Afhverju?“ spyr Kidda.

„Því það var einn sérfræðingurinn sem sagði einn daginn: „Heyrðu, það er módel í Danmörku sem segir að stofnanir séu ekki góðar. Við skulum bara loka þessu, gefa þeim vítamín og hitta þau heima.“

Davíð Bergmann er ekkert að skafa utan af hlutunum í þessu fræðandi en jafnframt bráðskemmtilega viðtali við mann sem hefur unnið með börnum og unglingum í þrjá áratugi og talar frá hjartanu og af reynslu. Þú getur hlustað og horft á allt viðtalið með áskrift að hlaðvarpsveitu Brotkast þar sem „Fullorðins“ með Kiddu Svarfdal er að finna. Þú getur nælt þér í áskrift hér.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing