Auglýsing

Kata minnist sonar síns sem lést á Stuðlum: „Er ekki komin tími til að þið hysjið upp um ykkur“

Kata Ingvadóttir minnist sonar síns á samfélagsmiðlum í dag en drengurinn hennar, Geir Örn Jacobsen, lést í eldsvoðanum á meðferðarheimilinu Stuðlum í lok síðasta mánaðar. Í dag hefði Geir orðið 18 ára gamall en Kata segir að dagur sem hefði átt að vera fullur af gleði „er í staðinn hlaðinn tárum og nístandi sorg.“

„Af hverju var hann ekki öruggur þarna inni?“

„Í dag kveðjum við fallega drenginn okkar í hinsta sinn. Minningarnar streyma fram og tilfinningarnar sem fylgja eru yfirþyrmandi. Depurð, doði, tárvot bros, bugun, vonleysi, grátandi hlátur og hlægjandi grátur en umfram allt nístandi sorg og óbærilegur missir sem mun vara að eilífu,“ segir Kata sem finnst það óhugsandi að hún fái aldrei aftur að sjá barnið sitt.

Hvernig gat þetta gerst?

„Að ég geti aldrei aftur faðmað hann og fundið fyrir honum í fanginu
Að ég geti aldrei aftur sagt honum hvað ég elski hann mikið og heyrt hann svo segja
„ég elska þig meira“
En undir öllum þessum óbærilega sársauka kraumar líka ólgandi reiði og hafsjór af ósvöruðum spurningum.
Hvernig gat þetta gerst ?
Af hverju var hann ekki öruggur þarna inni ?
Af hverju fékk hann ekki þá hjálp sem hann svo augljóslega þurfti ?
Af hverju á hann svona marga vini í svipuðum sporum ?
Af hverju eru þau svona mörg börnin sem fá enga hjálp en þurfa lífsnauðsynlega?
Kæru ráðamenn þessa lands, þessi orð eru til ykkar
Sonur minn er dáinn .. og hann dó á ykkar vakt
Úrræðaleysið er á ykkar ábyrgð, ykkar ALLRA
Skömmin er ykkar!“ segir Kata sem krefst þess að ríkisstjórn Íslands girði sig í brók.

„Er ekki komin tími til að þið hysjið upp um ykkur og komið börnunum til bjargar áður en fleiri börn deyja á ykkar vakt?
TAKIÐ ÁBYRGÐ!“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing