Auglýsing

Landris og kvikusöfnun heldur áfram: Skjálftavirknin segir til um næsta gos

Jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni er áfram fremur lítil. Nokkrir skjálftar hafa mælst á hverjum degi, flestir staðsettir á milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells. Undanfarna daga hefur veður þó haft áhrif á næmni jarðskjálftakerfisins.

Landris og kvikusöfnun undir Svartsengi heldur áfram með nokkuð svipuðum hraða og síðustu vikur. Búið er að leggja mat á það hversu mikið magn af kviku er talið að þurfi til þess að koma af stað næsta atburði. Það magn sem talið er að þurfi að safnast saman er að lágmarki um 23 milljónir rúmmetra. Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða má gera ráð fyrir að þeim mörkum verði náð í lok nóvember.

Miðað við túlkun nýjustu gagna og ef horft er til reynslunnar úr síðustu atburðum er þó ólíklegt að nægur þrýstingur verði búinn að byggjast upp til að koma af stað eldgosi í nóvember. Ef hraði landriss í Svartsengi breytist mun þetta mat breytast í samræmi við það.

Hættumat óbreytt

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat sem er óbreytt frá því síðast. Hættumatið gildir til 19. nóvember, að öllu óbreyttu.

Horft bæði til stöðu kvikusöfnunar og vaxandi skjálftavirkni til að meta hvort að styttist í næsta atburð

Í aðdraganda síðustu tveggja eldgosa fór skjálftavirkni á svæðinu norðvestan við Grindavík vaxandi vikurnar áður en gosin hófust. Talið er að þessi skjálftavirkni sé vísbending um það að þrýstingur í kvikuhólfinu sé farin að aukast og það styttist í næsta atburð.

Lærdómur af fyrri kvikuhlaupum og eldgosum nýtist við að meta hversu mikið magn af kviku þarf að bætast við undir Svartsengi til að koma af stað næsta atburði. Það tímabil þar sem auknar líkur eru taldar á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi markast af neðri og efri óvissumörkum. En einnig er mikilvægt að horfa á hvernig skjálftavirknin vex samhliða kvikusöfnuninni.

Ef markverð aukning á skjálftavirkni mælist á svipuðum tíma og rúmmál kviku undir Svartsengi er komið innan óvissumarka má gera ráð fyrir því að líkur á nýju kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi séu farnar að aukast. Líkurnar munu síðan aukast smám saman eftir því sem meira magn kviku bætist við og skjálftavirkni eykst. Mögulega þarf að gera ráð fyrir því að hætta á eldgosi sé talin mikil í nokkrar vikur áður en kvikuhlaup og mögulega eldgos hefst.

 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing