Javier Aguirre, landsliðsþjálfari Mexíkó í knattspyrnu, varð fyrir árás eftir tapleik Mexíkó gegn Hondúras þegar hann fékk, að því er virðist, fulla bjórdós í höfuðið sem skildi eftir sig stóran skurð á höfði hans.
Myndband sem birt var á samfélagsmiðlum sýndi Aguirre ganga meðfram vellinum í San Pedro Sula í Hondúras á meðan hlutum úr stúkunni hreinlega rigndu yfir hann. Þegar Javier var svo við það að taka í höndina á þjálfara mótherjana virðist dós hafa lent ofan á höfði hans, með þeim afleiðingum að stór skurður opnaðist fyrir ofan ennið. Blóð byrjaði strax að streyma niður í andlitið á honum án þess að hann kippti sé mikið upp við það.
Í viðtali eftir leikinn vildi Javier ekki mikið tjá sig um atvikið heldur óskaði hann Hondúras mönnum til hamingju með sigurinn,
„Þeir áttu skilið að vinna, þeir voru betri en við á öllum sviðum, ég á ekkert eftir nema að óska þeim til hamingju, og jæja, að reyna að lyfta andanum í liðinu mínu.“ sagði hann við ESPN.
Hinsvegar hafa bæði Knattspyrnusamband Norður-, Mið-Ameríku og Karíbahafasambandsins (Concacaf) og mexíkóska knattspyrnusambandið fordæmt atvikið í yfirlýsingum sem birtar voru eftir leikinn.
„Öryggi liðanna og stuðningsmanna er forgangsverkefni Concacaf. Þessi tegund ofbeldis á ekki heima í knattspyrnunni,“ sagði talsmaður Concacaf og bætti við að atvikinu verði vísað til aganefndar til „frekari skoðunar og rannsóknar“.
Knattspyrnusamband Mexíkó tók undir þessa yfirlýsingu, fordæmdi atvikið og hvatti stofnanir, stjórnendur, leikmenn, aðdáendur og fjölmiðla til að skapa öruggt umhverfi fyrir knattspyrnu viðburði sem þennan.
Hægt er að sjá myndband af atvikinu hér fyrir neðan