Yfirmaður kjörstjórnar Georgíu, Giorgi Kalandarishvili fékk yfir sig svartan vökva, sem talið er að sé málning, á meðan hann tilkynnti niðurstöður á Georgíska þinginu. Stjórnarandstæðingurinn David Kirtadze stóð fyrir framan þingið og lýsti yfir óánægju sinni þegar hann tók allt í einu upp dós og skvetti málningunni yfir Kalandarishvili.
Kalandarishvili skrifaði undir bókun sem segir að hinn umdeildi flokkur „Georgian Dream“, sem er hliðhollur Rússum, hefði unnið enn eitt kjörtímabilið og hefur það hrundið af stað miklum mótmælum í höfuðborginni Tbilisi. Mörg Vesturlönd hafa lýst kosningunum sem ólöglegum og saka Rússa um afskipti af kosningunum.