Ég er rosalega hrifin af gömlum íslenskum mat en þá er kjötsúpan fremst í flokki en nú bíður veðrið svo sannarlega uppá heita súpu, mér finnst fátt meira ,,kósý” en að elda kjötsúpu í köldu veðri og fá ilminn í húsið, kveikja á kertum og hafa það náðugt.
Hér er ég með uppskrift sem ég notast vanalega við þó svo að það er ekkert heilagt finnst mér með kjötsúpu en það má smakka til og sleppa eða bæta í.
Verði ykkur að góðu!
Innihald:
1,2 lítrar vatn og kjötkraftur
400 gr lambakjöt
1 tsk salt
200 gr gulrætur
200 gr gulrófur
100 gr hvítkál
7 msk súpujurtir
1 laukur
1 dl kalt vatn
3 msk súpuduft (blómkáls- eða blaðlaukssúpuduft)
Aðferð:
1. Hreinsið og skerið kjötið í fremur litla bita og látið út í sjóðandi vatn ásamt kjötkrafti. Lækkið hitann í minnsta straum en passið að suðan detti ekki niður.
2. Veiðið froðuna af þegar suðan er komin upp og sjóðið í 30 mínútur.
3. Flysjið rófur og gulrætur og skerið smátt helminginn af þeim og setjið út í kjötpottinn þegar kjötið hefur soðið í hálftíma og sjóðið með kjötinu síðasta korterið af suðutímanum. Skerið hinn helminginn í stærri bita og sjóðið sér og berið fram með kjötinu.
4. Skerið hvítkálið fremur smátt og sjóðið það í súpunni síðasta korterið ásamt hinu grænmetinu.
5. Hristið saman í hristiglasi súpuduftið og 1 dl af vatni og hrærið út í súpuna og látið sjóða með síðustu 10 mínúturnar.
Borið fram með kartöflum.
Uppskrift birtist fyrst á Hún.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.