„Salurinn er að taka á sig mynd og hann er gríðarlega fallegur líkt og hann hefur verið undanfarin ár,“ segir tónlistarmaðurinn Geir Ólafsson sem heldur „The Las Vegas Christmas Show“ í áttunda skiptið í Gamla Bíói. Fyrsta jólasýningin er á fimmtudaginn en eins og Geir segir sjálfur er um að ræða tónleika í algjörum sérflokki hvað varðar hljóðfæraleik, uppsetningu og útsetningu en hingað til lands koma heimsklassa hljóðfæraleikarar frá Los Angeles og eru þeir tíu talsins.
„Þeirra á meðal eru tveir bestu trommuleikarar í heiminum en það eru þeir Bernie Dresel og Tom Brechtlein. Þeir ætla að mæta hvor öðrum á sviðinu og því má segja að það styttist í trommueinvígi aldarinnar og það fer fram á Íslandi,“ segir Geir.
Týnda dóttirin snýr aftur heim
En það eru ekki bara heimsklassa erlendir tónlistarmenn sem taka þátt í jólasýningunni í ár því engin önnur en Anna Mjöll mun stíga á svið og syngja inn jólin fyrir þá fjölmörgu sem hafa tryggt sér miða á sýninguna. Anna Mjöll er búsett í Los Angeles en ákvað að koma til Íslands þegar kallið kom að taka þátt í „The Las Vegas Christmas Show.“
„Hún Anna Mjöll hefur verið að gera ótrúlega góða hluti vestanhafs og kemur þar reglulega fram þannig að það stefnir í ógleymanlega stund í Gamla Bíói. Við byrjum á fimmtudaginn og erum með eina sýningu á kvöldi fram á sunnudagskvöld þegar síðasta sýningin fer fram,“ segir Geir sem hvetur alla til þess að taka sér smá frí frá hinum hversdagslegu áhyggjum og jólastressi.
Það sé stundum gott að kúpla sig út og bara fá að njóta góðrar kvöldstundar með frábærum tónlistarmönnum.
„Já og ekki bara frábærum tónlistarmönnum heldur líka glæsilegum kvöldverð sem hefur slegið í gegn ár eftir ár. Það er hægt að næla sér í miða í kvöldverðinn og tónleikana á Tix.is,“ segir Geir í samtali við Nútímann.