Björgunarsveitir á Ströndum, Reykhólum og Dalabyggð stefna á að selflytja kjörgögn á talningarstað í Borgarnesi. Veðurspá er ekki góð og hefur verið gefin út gul viðvörun á Ströndum og Norðurlandi vestra.
Samkvæmt Rúv.is munu björgunarsveitir í Norðvesturkjördæmi flytja atkvæði á talningarstað. Þau atkvæði sem koma frá Ströndum, Reykhólum og Dalabyggð verða selflutt og mun Björgunarfélag Ísafjarðar flytur atkvæði af norðanverðum Vestfjörðum alla leið í Borgarnes.
Þröskuldar verða erfiðir
Samkvæmt formanni björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík, Andra Hrafni Ásgeirssyni, eru mestar líkur á því að veðrið verði einna verst á Þröskuldum. Meðlimir Dagrenningar munu keyra áleiðis í Árneshrepp og hitta björgunarsveitarmenn þaðan með kjörgögn. Svo koma þeir við á Drangsnesi á leiðinni til baka. Kjörstaður í Árneshreppi mun vera lokað um þrjú og þá geta atkvæði komið á Hólmavík um sexleytið.
Andri segir í samtali við Rúv að færðin verði, sem fyrr segir, ekki góð yfir Þröskulda en það verði ekkert sem þeir hafi ekki séð áður í björgunarsveitinni og þeir muni meta það þegar nær dregur hvort farið verði á einum eða tveimur bílum, þegar þeir fara með atkvæðin áleiðis á talningarstað.
Andri segir að þeir komi kjörgögnum til björgunarsveita frá Reykhólum og Dalabyggð og þeir komi þeim á talningarstað.