Auglýsing

Konan sem Eminem sakaði um vanrækslu lést úr krabbameini

Debbie Nelson, móðir tónlistarmannsins Eminems, lést í gærkvöldi í St. Joseph, Missouri, eftir baráttu við langt gengið lungnakrabbamein, samkvæmt heimildum TMZ. Lögmaður Eminems, Dennis Dennehy, staðfesti andlátið.

Debbie greindist fyrst með lungnakrabbamein í september, og fregnir þá hermdu að lífslíkur hennar væru takmarkaðar.

Samband Eminems við móður sína hefur lengi verið sveiflukennt og oft á tíðum stormasamt. Á fyrstu árum ferils síns sakaði hann hana opinberlega um vanrækslu og andlegt ofbeldi, sem hann lýsti í textum sínum, meðal annars í laginu „Cleanin’ Out My Closet.“

Kærði son sinn

Árið 1999 kærði Debbie son sinn fyrir ærumeiðingar, sem varð til þess að samband þeirra versnaði enn frekar. Hún gaf einnig út ævisögu árið 2007, „My Son Marshall, My Son Eminem,“ þar sem hún lýsti flóknum samskiptum þeirra.

Þrátt fyrir þetta hafa þau í gegnum árin reynt að bæta samband sitt. Lagið „Headlights“ frá árinu 2013 markaði mikil tímamót þar sem Eminem baðst opinberlega afsökunar á fyrri ummælum og sýndi eftirsjá yfir samskiptum þeirra.

Síðustu ár tókst þeim að rækta samband sitt að nýju, og árið 2022 óskaði Debbie Eminem til hamingju með inngöngu hans í Frægðarhöll rokk- og ról tónlistar.

Debbie Nelson var 69 ára.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing