Landris virðist hafið að nýju í Svartsengi og fer virkni í gosinu dvínandi. Þá sé kunnuglegur fasi líklega að hefjast og nú fari að safnast saman í nýtt eldgos í kvikuhólfunum undir Svartsengi. Þetta er á meðal þess sem Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands sagði við fréttastofu Vísis í dag.
Ingibjörg sagði gosóróa hafa farið lítillega lækkandi undanfarna faga og sé áfram á rólegri niðurleið. Gosinu gæti því verið að ljúka.
„Það gæti hugsanlega gert það á næstu dögum. En við þurfum samt að bíða og sjá til með það,“ segir Ingibjörg.
Þá segir hún það hafa komið í ljós í morgun að landris væri hafið að nýju.
„Síðustu daga og vikur hefur ekki verið hægt að staðfesta að landris sé hafið að nýju en núna í morgun kemur þetta í ljós, það er að segja að vísbendingar eru um að landris sé hafið að nýju og að kvikusöfnun sé því enn í gangi undir Svartsengi. Áður var í rauninni útstreymi frá gosinu svipað og innflæði fyrir neðan þannig við sáum ekkert landris.“