Þriðjudaginn 3.desember klukkan 23:00 að kvöldi birtist forseti Suður Kóreu, Yoon Suk Yeol, á skjám landsmanna og lýsti yfir að herlög tækju umsvifalaust gildi í landinu.
Forsetinn sagði ástæðu laganna vera að and-Kóresk öfl væru að undirbúa valdarán í landinu og að þau þyrfti að stöðva undireins en einnig minntist hann á „ógn frá Norður Kóreu“ án þess að skilgreina þá ógn frekar.
Forsetinn bannaði einnig öll mótmæli og þingstörf og setti alla fjölmiðla undir stjórn ríkisins eins og neyðarlög í landinu heimila.
Aðeins mínútum seinna birtust vopnaðir hermenn á skriðdrekum og vopnuð óeirðalögregla og umkringdu þinghúsið og þyrlur byrjuðu að sveima kringum svæðið.
Þingmenn landsins sögðu aðgerðir forsetans ólöglegar og brot á stjórnarskrá landsins og sumir kölluðu þær tilraun til valdaráns en jafnvel flokksmenn forsetans sögðu þetta ranga ákvörðun.
Þingmenn brutu sér leið inn í þinghúsið til að kjósa
Á ótrúlegan hátt brutu þingmenn sér leið inn í þinghúsið og sumir ruddu sér leið gegnum vopnaða hermenn, til þess að komast í þinghúsið að kjósa um lögmæti aðgerða forsetans.
Allir kusu þeir samhljóma og voru atkvæðin rúmlega 190 gegn engu og þar með hafði þingið úrskurðað aðgerðir forsetans ólöglegar.
Herinn hlýddi þessari ákvörðun þingsins framyfir skipum forsetans og allir hermenn yfirgáfu vettvang enda ljóst að um mjög óvinsæla ákvörðun var að ræða en stór hópur fólks hafði þegar safnast saman fyrir utan þinghúsið til að mótmæla ákvörðun forsetans.
Raunveruleg ástæða Forsetans
Í ljós kom svo að forsetinn hefur verið viðriðinn fjölda hneykslismála en hann hefur setið næstum valdalaus frá árinu 2022 en stjórnarandstaðan vann stórsigur í seinustu þingkosningum og getur forsetinn ekki komið neinu í verk vegna þessa.
Þá hefur hann mælst með einungis 17 prósent stuðning frá þjóð sinni og orðrómur hefur verið að verið sé að undirbúa ákæru á hendur honum vegna spillingar.
Því virðist vera um að ræða örvæntingarfulla tilraun forsetans til að halda völdum og koma í veg fyrir aðgerðir gegn honum.
Ótrúleg atburðarás sem varði bara nokkrar klukkustundir
Þessi tilraun varði þó ekki nema nokkrar klukkustundir en rúmlega fimm um morguninn var búið að lýsa aðgerðirnar ólöglegar.
Þingið hefur hvatt forsetann til að segja umsvifalaust af sér ellegar verði hann ákærður fyrir athæfi sitt.
Þá hefur meirihluti starfsfólks forsetans sagt af sér og margir ráðherrar í stjórn hans boðist til að segja af sér sömuleiðis.