Bandaríska útgáfan af Cocoa Puffs fer aftur í hillur verslana hér á landi eftir að hafa verið tekið úr sölu árið 2021. Íslenska innflutningsfyrirtækið Nathan og Olsen flytja inn morgunkornið en urðu að láta af þeim innflutningi þar sem framleiðandinn, stórfyrirtækið General Mills, hafði bætt ákveðnu litarefni út í uppskrift morgunkornsins þar sem það samræmdist ekki Evrópulöggjöf.
RÚV bendir á að Evrópusambandið hafi brugðist við fréttaflutningi af málinu þegar Cocoa Puffs var „bannað“ á Íslandi enda voru viðbrögð almennings við þessu ekki beint jákvæð.
Cocoa Puffs-jól?
„Að gefnu tilefni: ESB bannaði Íslendingum ekki að borða Cocoa Puffs og Lucky Charms um daginn. Framleiðandinn sjálfur ákvað víst að bæta litarefni út í uppskriftina þannig að það brýtur heilbrigðisreglur. Efnið er sagt vera „náttúrulegt litarefni“ en það mun vera leyndarmál hvað það heitir eða hvort það átti að setja svo mikið af því í uppskriftina að hættulegt teljist. Við vitum bara að fyrirtækið ákvað að hætta að framleiða fyrir Íslendinga. Hvernig sem á því stendur erum við eftir sem áður stolt af því að vera með framsæknar heilbrigðisreglur, ekki síst ef þær eru metnaðarfyllri en á öðrum mörkuðum,“ skrifaði ESB á Íslandi á Facebook-síðu sína um árið.
En hvað um það. Í tilkynningu frá Nathan og Olsen segir að nú hafi öllum hindrunum verið rútt úr vegi.
„Að sögn framleiðandans vestanhafs, General Mills, hefur öllum hindrunum verið rutt úr vegi og munu íslenskir neytendur því aftur geta gætt sér á hinu eina sanna súkkulaðimorgunkorni strax í byrjun desember,“ segir í tilkynningu frá Nathan og Olsen.