Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari Íslands, hefur ítrekað vakið athygli fyrir ákvarðanir sínar í málum sem sumir telja einkennast af pólitískum eða samfélagslegum þrýstingi. Nú þegar ljóst er að vararíkissaksóknarinn Helgi Magnús Gunnarsson er að snúa tilbaka til starfa úr leyfi er athyglisvert að líta aðeins á nokkur af umdeildari málum Sigríðar.
Fjöldi mála, sem hún hefur annað hvort vísað frá eða tekið fyrir, hafa orðið að hitamálum. Mörg þeirra hafa fengið á sig ásýnd þess að vera undir áhrifum tíðarandans fremur en skýrum lagalegum rökum. Því hefur hún, í augum gagnrýnenda, verið kölluð „mesti woke-saksóknari landsins.“
Má þar nefna fjárkúgunarmál Arnars Grant og Vítalíu Lazarevu en rannsókn þess var hreinlega hætt þrátt fyrir að áþreifanleg sönnunargögn hefðu þar legið fyrir.
Helgi snýr aftur
Eitt umdeildasta málið sem tengist störfum Sigríðar er meðferð hennar á málinu gegn Helga Magnúsi Gunnarssyni, fyrrverandi vararíkissaksóknara. Þar ákvað Sigríður að fara eftir kæru frá mannréttindasamtökunum Solaris, sem tengjast Semu Erlu Serdar. Málið vakti mikla athygli og þótti sumum bera keim af pólitískri slagsíðu. Á sama tíma var kærum á hendur Semu og félögum hennar vegna meintra mútugreiðslna í Egyptalandi vísað frá án skýringa. Þetta þótti afar sérkennilegt þar sem múturnar, sem eru skýrt brot á íslenskum lögum, voru svo gott sem að fullu viðurkenndar í fjölmörgum viðtölum við aðilana sem að þessu stóðu.
Einnig voru skýrar reglur um fjársafnanir brotnar, sem og lög um fjármagnsflutninga, en aðstandendur Solaris viðurkenndu að hafa flutt um það bil 70 milljónir króna í reiðufé úr landi en íslensk lög kveða á um að ekki megi flytja út meira en 10 þúsund dollara í slíkum flutningum.
Hatursorðræða fyrir átta árum
Leiðir Semu Erlu, sem kærði Helga Magnús, og Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara hafa áður legið saman. Fyrir átta árum varð Sema Erla áhugasöm um að nota þá tiltölulega nýtt hugtak, hatursorðræðu, til að klekkja á þeim sem höfðu aðrar skoðanir á samfélagsmálum en hún. Sema Erla var þá nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi og stefndi á pólitískan frama. Henni var sérstaklega uppsigað við Útvarp Sögu.
Lögreglan hóf rannsókn á meintri hatursorðræðu í símatíma Útvarps Sögu, sem Pétur Gunnlaugsson stjórnaði en hætti rannsókn. Þá kom til skjalanna Sigríður ríkissaksóknari og skipaði lögreglu að taka málið upp að nýju. Lögreglan hlýddi ríkissaksóknara, líkt og henni ber að gera, og ákærði Pétur fyrir hatursorðræðu. Í ársbyrjun 2017 var Pétur sýknaður. Tjáningarfrelsið sigraði. En Sigríður ríkissaksóknari er núna í ár komin í nýja herferð gegn málfrelsinu.
Þrír þátttakendur í umræðunni kærðir fyrir hatursorðræðu
Lögum samkvæmt leggur ríkissaksóknari línurnar fyrir ákæruvaldið, þar á meðal lögregluna. Nýverið hafa fleiri atlögur verið gerðar að tjáningarfrelsinu, samkvæmt fyrirmælum Sigríðar Friðjónsdóttur. Þrír einstaklingar sem hafa tekið þátt í svokallaðri transumræðu hafa sætt lögreglurannsókn og einn hefur verið ákærður. Þremenningarnir hafa fyrst og fremst andmælt því sem þau kalla transáróður í skólum, þar sem Samtökin 78 kenna að sumir fæðist í röngum líkama og að börn geti skipt um kyn.
Þá var ákvörðun hennar um að ákæra knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson, landsliðsmann í knattspyrnu og leikmann ítalska liðsins Genoa, fyrir kynferðisbrot vægt til orða tekið umdeild.
Páll Vilhjálmsson bloggari hefur þegar verið ákærður, Eldur Smári Kristinsson formaður Samtakanna 22 og frambjóðandi Lýðræðisflokksins í nýafstöðnum þingkosningum hefur var kallaður í lögregluyfirheyrslu og bíður ákæru. Þriðji einstaklingurinn, sem ekki er hægt að nafngreina, á það sammerkt með Páli og Eldi Smára að hafa gagnrýnt aðkomu Samtakanna 78 að fræðslu barna. Hér er um að ræða frjálsa umræðu í lýðræðisþjóðfélagi og ekki alveg skýrt að lögregla og ákæruvald eigi að skipta sér af hvaða skoðanir borgarar hafi á samfélagsmálum. Sá háttur er vissulega hafður á í lögregluríkjum eða trúarríkjum eins og Afganistan en fer ekki alveg saman við viðteknar hugmyndir um vestræn gildi og tjáningarfrelsið sem er hornsteinn þeirra.
Misræmi í sambærilegum málum
Fjöldi annarra mála styrkja gagnrýni á störf ríkissaksóknara. Má þar nefna fjárkúgunarmál Arnars Grant og Vítalíu Lazarevu en rannsókn þess var hreinlega hætt þrátt fyrir að áþreifanleg sönnunargögn hefðu þar legið fyrir. Þetta þykir sýna misræmi í því hvaða málum er fylgt eftir og hvernig ákvarðanir eru teknar og er til dæmis afar fróðlegt að bera þetta mál saman við fjárkúgunarmálið gegn Sigmundi Davíð, þar sem tvær systur reyndu að kúga út úr forsætisráðherra átta og hálfa milljón króna. Þær voru ákærðar og á endanum dæmdar fyrir það mál sem þykir að mörgu leiti sambærilegt Vítalíu málinu þó að upphæðirnar sem hún fór fram á hefðu verið umtalsvert hærri.
Ákærði Albert eftir niðurfellingu
Þá var ákvörðun hennar um að ákæra knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson, landsliðsmann í knattspyrnu og leikmann ítalska liðsins Genoa, fyrir kynferðisbrot vægt til orða tekið umdeild. Málið hafði áður verið fellt niður af héraðssaksóknara í febrúar, þar sem það þótti ólíklegt til sakfellingar. Hins vegar var þeirri niðurfellingu áfrýjað til ríkissaksóknara að beiðni lögmanns konunnar sem kærði Albert, og ákærði Sigríður hann að lokum á ný.
Albert hafði þá sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist vera saklaus og myndi ekki tjá sig frekar á meðan málið væri til rannsóknar. Lokað þinghald fór fram í málinu, en Albert var á endanum sýknaður í héraðsdómi. Þetta hefur vakið gagnrýni á ákvarðanatöku ríkissaksóknara og þá áherslu sem lögð er á slík mál, þar sem margir telja að ákæra hefði aldrei átt að koma til.
Tvískinnungur í ákvarðanatöku
Á sama tíma og stór mál eru látin niður falla hefur Sigríður tekið ákvarðanir sem margir telja skjóta skökku við. Þar má nefna mál sem snýr að hjúkrunarfræðingi sem nýlega var ákærð fyrir manndráp, þrátt fyrir skort á skýrum sönnunargögnum. Þetta mál er sérstaklega athyglivert þegar það er borið saman við plastbarkamálið, þar sem læknar voru sakaðir um stórfellt gáleysi, en því var ekki fylgt eftir með sama þunga.
Spurningin um hlutleysi
Þessi röð ákvarðana hefur gert það að verkum að Sigríður hefur fengið á sig orðspor ríkissaksóknara sem sveiflast með pólitískum vindum og þrýstings sérviskuhópa fremur en að byggja ákvarðanir sínar á skýrum lagalegum forsendum. Fyrir vikið stendur hún nú frammi fyrir aukinni gagnrýni úr ýmsum áttum – bæði frá almenningi og lögfræðingum sem telja að hlutverk ríkissaksóknara eigi að vera óháð tíðarandanum.
Einn lögmaður orðaði þetta þannig að ríkissaksóknari gerði sér að leik að ákæra til að sjá hvað dómstólar hleypa wók-saksóknaranum langt í að móta leikreglur samfélagsins. En það er ekki hlutverk ríkissaksóknara að fara í veiðiferð til dómstóla til að fiska í gruggugu vatni. Ríkissaksóknari á að fara að lögum, líkt og almenningur, og ekki beita ákæruvaldinu nema yfirgnæfandi líkur séu á að lög hafi sannanlega verið brotin.
Ef ríkissaksóknari á að njóta trausts þjóðarinnar er ljóst að ákvarðanir hennar verða að standast bæði lagalega og siðferðilega skoðun. Hvort Sigríður Friðjónsdóttir tekst að vinda ofan af þeirri gagnrýni sem hún nú stendur frammi fyrir, á eftir að koma í ljós.