Grétar Freyr Baldursson hafði starfað hjá Norðuráli á Grundartanga í nærri tvo áratugi en honum var sagt upp störfum viku fyrir jól.
DV greindi fyrst frá málinu og hefur það vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum.
Uppsögnin kom Grétari í opna skjöldu, sérstaklega í ljósi þess að hann hafði nýlega birt Facebook færslu þar sem hann harmaði að komast ekki inn í svokallaðan Stóriðjuskóla fyrirtækisins.
Norðurál segir að starfsfólki sé frjálst að tjá sig á samfélagsmiðlum en Grétar telur færslu sína hafa verið orsök uppsagnarinnar enda hafi hann starfað þar allan þennan tíma við góðan orðstír.
Facebook færslan
Færsla sem hann segist hafa sett upp í gríni, virðist hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir hann en í henni gantast hann með að erfiðara virðist að komast í Stóriðjuskóla Norðuráls en Harvard háskóla.
Í færslu sinni, sem birt var 11. desember, skrifaði Grétar:
„Það eru líklega meiri líkur á að fá inngöngu í Harvard Háskólann heldur en að reyna við þetta grunnnám.“
Hann birti einnig skjáskot af höfnunarbréfinu frá Stóriðjuskólanum, sem starfsmenn Norðuráls geta sótt um eftir þriggja ára starf. Námið tryggir 5% launahækkun.
Grétar hafði ítrekað sótt um inngöngu í skólann á síðustu 18 árum en var alltaf hafnað, þrátt fyrir góða mætingu og hrós fyrir störf sín.
Hann segir aðrir starfsmenn með mun minni reynslu hafi fengið inngöngu og nefnir dæmi þar sem starfsmaður með 12 ára reynslu var tekinn inn og annað tilvik fyrir tveimur árum, þar sem starfsmaður með aðeins þriggja ára starfsreynslu fékk inngöngu.
Grétar lýsir því að honum hafi fundist ítrekað fram hjá sér gengið.
Fimmtudaginn 19. desember, aðeins viku eftir að hann birti færsluna, var hann við störf í steypuskálanum þegar vaktstjórinn kom að honum og sagði honum og kallaði hann á fund með mannauðsstjóra.
Grétar segist strax hafa fengið á tilfinningunni hvað væri í vændum og spurði hvort það ætti nú að fara að reka sig en vaktstjórinn sagðist ekkert vita, sem Grétar telur ekki vera sannleikanum samkvæmt.
„Mér er mjög illa við þetta. Ég bjóst ekki við þessu. Hann gekk við hliðina á mér eins og ég væri í handjárnum á fundinn með mannauðsstjóra“
Grétar lýsir fundinum sem ógeðfelldum og var honum afhent uppsagnarbréf og sagt að hann ætti ekki lengur samleið með fyrirtækinu.
Leiddur út eins og sakamaður
Samkvæmt Grétari var hann leiddur út af svæðinu „eins og sakamaður“ og fékk ekki tækifæri til að kveðja samstarfsfélaga sína.
Honum var fylgt í búningsklefann þar sem hann skipti um föt undir eftirliti og svo fylgt út á bílaplan og keyrður heim.
„Það var staðið yfir mér í búningsklefanum. Þetta var eins og ég hefði framið eitthvað glæpsamlegt“
Grétar segir það hafa angrað hann mest að fá ekki tækifæri til að kveðja samstarfsfélaga sína og þegar hann var kominn út í bíl var þegar búið að henda honum út af Teams svo hann gat ekki haft samband við neinn þar.
Hann bætir við að fyrrverandi samstarfsmenn hans hafi haft samband eftir uppsögnina og lýst ótta sínum við að tjá sig um málið og að enginn hafi þorað að setja læk á færsluna hans af ótta við að fara sömu leið.
Grétar lýsir vinnustaðnum sem þrúgandi. „Það er rosamikil óttamenning þarna. Búin að vera alveg í fleiri, fleiri ár,“ segir hann.
Ömurleg jól
Uppsögnin hafði mikil áhrif á Grétar, sem fékk þriggja mánaða laun í uppsagnarfrest. „Ég er búinn að vera heillengi að jafna mig á þessu. Þetta var mitt lífsviðurværi. Þetta voru alveg ömurleg jól,“ segir hann.
Norðurál ítrekar að tjáningarfrelsi starfsmanna sé virt en segist ekki geta tjáð sig um mál ákveðinna starfsmanna.