Brynjar Níelsson mætti í hlaðvarpið Ein Pæling og ræddi þar við þáttastjórnandann Þórarinn Hjartarson um alls kyns málefni.
Í myndbroti úr þættinum ræðir Brynjar um fjölbreytileikann svokallaða og hann er ekki að skafa utan af skoðunum sínum frekar en fyrri daginn.
Brynjar segir að þeir sem hvað mest tala um fjölbreytileikann hafa í raun mjög litla þolinmæði gagnvart fjölbreytileikanum.
„Þetta snýst allt um þau, þennan hóp,“ segir Brynjar.
Hann segir að enginn hafi í raun eins lítinn áhuga á fjölbreytileika og sá hópur sem mest talar um slíkt og innan þess hóps þurfi allir að vera eins og sá sem fer gegn straumnum sé útskúfaður.
Brynjar segir að honum finnist fögur, sú frelsishugsun að allir fái bara að vera eins og þeir eru, hvort sem það er trans, hommi, lesbía eða eitthvað annað.
„Við megum bara ekki mismuna þér eftir því hvernig þú ert.“
Óæskileg umræða afgreidd sem hatur
Hann segir slíkt frelsi vera algjörlega innan stefnu Sjálfstæðisflokksins en bætir svo við að enginn hópur eigi einhver aukin réttindi að allt snúist um hann.
Hann segir óboðlegt að þvingunarvaldi sé beitt þegar einhver hefur aðra skoðun en sá hópur sem segist fagna fjölbreytileikanum og aðrar skoðanir séu kærðar til ríkisvaldsins í því yfirskyni að um hatursorðræðu sé að ræða.
Brynjar segir þá aðferðafræði að kalla allan málflutning sem ekki er talinn æskilegur upplýsingaóreiðu, hatur eða falsfréttir, vera mjög fasíska í eðli sínu.
Þáttastjórnandi bendir Brynjari á að hatur geti leitt til ofbeldis en Brynjar svarar því til að þarna sé einfaldlega verið að þurrka út frelsi af því einhver hópur þolir ekki gagnrýna umræðu.
Þórarinn segir þá að fyrsta skref í ofbeldi sé hatursorðræðan.
Brynjar segist þá vona að ungt fólk einfaldlega muni hafa vit á að greina þar á milli og að það þurfi að fá að vera sjálfstæðir einstaklingar sem fá að viðra sjálfstæðar skoðanir.
Hann segir svo að lokum að vinstri sinnaðir fjölmiðlar tali sífellt um hættulega menn ef þeir tala fyrir frelsi einstaklingsins, sem þurfi þó vissulega að bera ábyrgð á orðavali sínu.