Haukur Ægir Hauksson afplánar nú fimm ára fangelsisdóm á Litla-Hrauni vegna Sólheimajökulsmálsins svokallaða en hann ræddi við Frosta Logason í þættinum ‘Spjallið með Frosta’ á hlaðvarpsveitunni Brotkast.is.
Þar opnaði hann sig um ágreining sinn við réttarkerfið, dóminn sem hann fékk vegna meintrar skipulagðar brotastarfsemi og nú, nýja ákæru fyrir tilraunar til manndráps, en Haukur telur sig vera beittan miklu misrétti af saksóknaranum sem sótt hefur á Hauk í báðum þessum málum.
Haukur segist hafa ákveðið að koma fram í viðtali eftir að ákæran vegna manndrápstilraunarinnar hafi verið birt opinberlega og hann nafngreindur í fjölmiðlum, en Ríkisútvarpið fékk ákæruna senda í tölvupósti frá saksóknaranum sem virðist hafa verið mikið í mun um að ákæran yrði á allra vitorði.
„Það er logið upp á mig í skýrslum og fjölmiðlum, og mér býður við því hvernig Karl Ingi (saksóknarinn) hefur komið fram,“ segir hann.
Viðurkennir þau brot sem hann framdi
Haukur tekur skýrt fram að hann hafi gerst sekur um brot og segir sanngjarnt að hann sé nú að taka út refsingu vegna þeirra. Hann hafi hinsvegar verið dæmdur fyrir önnur brot sem hann hafi alls ekki framið og að þau brot beri með sér mun meiri refsiþunga en hann hafi unnið sér inn.
Honum finnst framganga saksóknara þannig mjög óréttlát og telur sig beittan óþarfa hörku, ekki síst í ljósi þess að Haukur segir sönnunargögn liggja fyrir sem staðfesti mál sitt.
Haukur segir að þrátt fyrir að hafa gerst brotlegur við lögin hafi hann alltaf haft trú á að fá sanngjarna málsmeðferð í kerfinu en hann segir að sönnunargögnin sem fyrir hendi séu í málinu sýna annað.
Sólheimajökulsmálið og þungur dómur
Haukur var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir þátt sinn í Sólheimajökulsmálinu en það mál snerist um umfangsmikil fíkniefnabrot og var rannsakað sem skipulögð brotastarfsemi.
Hann var einn af 15 sem hlutu dóm í málinu en þyngsti dómurinn, sex ár, féll á Jón Inga Sveinsson.
Haukur var þó með næstþyngsta dóminn sem hann telur óverðskuldaðan.
„Það sem ég gerist í raun og veru sekur um er að sækja burðardýr,“ segir Haukur sem fullyrðir að lögregla hafi ranglega tengt hann við fíkniefni sem hann hafi ekkert haft með að gera.
Áfrýjaði dóminum og segir réttarkerfið ekki réttlátt.
Haukur segir lögregæu hafa sönnunargögn fyrir því að samkvæmt hans bestu vitneskju hafi hann einungis verið sækja mann sem átti að hafa með sér eitt og hálft kíló af kókaíni úr skemmtiferðaskipi sem lagt var við bryggju við Reykjavíkurhöfn.
Sá maður hafi hinsvegar haft á sér umtalsvert meira magn og hafi Haukur verið dæmdur eftir því. Þá hafi hann einnig verið dæmdur fyrir mikið magn af öðrum fíkniefnum sem fundust hér og þar um borgina við handtökur á fólki sem tengdust málinu með öðrum hætti en Haukur.
Í kjölfarið hafi hann því hlotið þyngri dóm en sá sem flutti efnin til landsins.
Haukur er afar ósáttur við þyngd dómsins og hefur áfrýjað honum.
Ákæra fyrir tilraun til manndráps
Haukur er einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps vegna atviks sem átti sér stað í mars 2023. Samkvæmt ákærunni átti hann að hafa haldið manni í kyrkingartaki í sjö mínútur þar til lögregla kom á vettvang.
„Ég var sleginn í höfuðið með kylfu, sem næstum rotaði mig, og þurfti því að halda manninum niðri þar til lögreglan mætti“
Haukur segir hins vegar að atvikið hafi verið sjálfsvörn þar sem þetta kvöld hafi stúlka honum tengd, sem var einungis rétt orðin 18 ára gömul, hringt í hann úr leigubíl og sagt honum að bílstjórinn hefði brotið á sér kynferðislega.
Haukur hafi fengið að tala við bílstjórann í gegnum símann, sem talaði enga íslensku og mjög slæma ensku, og sannfærði hann um að koma með stúlkuna heim til sín.
Þegar þangað var komið brotnaði stúlkan niður og Haukur heimtaði að bílstjórinn myndi bíða meðan hann hringdi á lögreglu en það vildi bílstjórinn ekki og brást ókvæða við.
Hann réðist þá vinkonu Hauks sem þarna var viðstödd og Haukur greip þá inn. Tók þá leigubílstjórinn svokallaði hinsvegar upp kylfu og sló Hauk í höfuðið svo að hann hlaut mikla bólgu og skurð á höfði.
„Ég var sleginn í höfuðið með kylfu, sem næstum rotaði mig, og þurfti því að halda manninum niðri þar til lögreglan mætti,“ segir Haukur.
Haukur kallaði á vinkonu sína og bað hana að hringja á lögreglu, sem hún og gerði en maðurinn barðist mikið um og var Haukur að eigin sögn orðinn uppgefinn í handleggjunum eftir átökin.
Ítrekaði hann þá við vinkonuna að hringja aftur á lögregluna, sem hún gerði þá í annað sinn.
Logið til um atburðarás í skýrslum
Í skýrslu lögreglu er sagt að Haukur hafi verið tregur til að sleppa manninum þegar lögregla mætti á vettvang en Haukur segir það alrangt og tekur fram að myndbandsefni úr búkmyndavélum lögreglu sanni mál hans. Þar sé um að ræða sönnunargögn sem hafin séu yfir allan vafa.
Haukur segir að hann hafi varla getað trúað því þegar hann fékk á sig ákæru fyrir tilraun til manndráps og bendir á að ekkert í atburðarásinni passi við þá niðurstöðu.
Hann neitar því alfarið að hafa ætlað að svipta manninn lífi.
„Ég öskraði á vinkonu mína að hringja í lögreglu og sjúkrabíl af því ég var meiddur, og hann var með meðvitund allan tímann.“
Haukur segir að reynt hafi verið að benda saksóknara á að maður sem ætli sér að drepa annan mann sé ólíklegur til að hringja í lögreglu og biðja þá um að mæta á vettvang og enn síður til að hringja annað símtal til að biðja lögreglu enn frekar að flýta sér á vettvang.
„Hann þarf ekki einu sinni að mæta í fangelsi og fær á sig 500 þúsund króna skaðabótakröfu. Á meðan er farið fram á að ég greiði honum 3 milljónir vegna meints manndráps.“
Þá segir hann einnig að bæði hann og lögmaður sinn hafi fengið að sjá brotin úr búkmyndavél lögreglu og þar sjáist svo ekki verði um villst að hann sleppi manninum um leið og lögregla mætti á vettvang. Það sé því með öllu ósatt að lögregla hafi þurft að bjarga manninum úr lífshættulegu kyrkingartaki Hauks.
Þá bendir Haukur einnig á að honum hafi verið sleppt strax daginn eftir en slíkt sé ekki venjan með aðila sem taldir séu hættulegir, grunaðir um að hafa ætlað að drepa einhvern.
Meintur þolandi Hauks dæmdur fyrir kynferðisbrot
Maðurinn sem Haukur er sakaður um að hafa reynt að bana þetta kvöld var í síðustu viku dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrotið gegn umræddri stúlku. Sá aðili fái hinsvegar að taka út sinn dóm í samfélagsþjónustu á meðan yfir Hauki vofi að lágmarki 5 ára fangelsisdómur, fyrir meinta manndrápstilraun.
Haukur bendir á ósamræmið í því hvernig mál þeirra tveggja hafa verið meðhöndluð.
„Hann þarf ekki einu sinni að mæta í fangelsi og fær á sig 500 þúsund króna skaðabótakröfu. Á meðan er farið fram á að ég greiði honum 3 milljónir vegna meints manndráps. Þetta er svo ógeðslega ósanngjarnt,“ segir Haukur.
Verði Haukur dæmdur mun leigubílstjórinn því græða tvær og hálfa milljón á kvöldinu umrædda.
Ágreiningur við réttarkerfið
„Ég spurði lögmann minn af hverju ég mætti ekki bíða eftir dómi og afplánun úti í samfélaginu. Hann sagði að það væri vegna réttarvitundar almennings. Að almenningi gæti orðið svo misboðið ef ég fengi að ganga göturnar. En hvar er réttarvitund almennings þegar nauðgarar og ofbeldismenn ganga lausir á meðan þeir bíða afplánunnar?“ spyr Haukur.
Haukur gagnrýnir einnig þyngd dóma í fíkniefnamálum og segir að margir ofbeldismenn og kynferðisbrotamenn séu á biðlista eftir afplánun á meðan hann hafi verið settur beint í einangrun og fangelsi.
Fyrir neðan má sjá brot úr viðtalinu við Hauk en hægt er að sjá það allt í fullri lengd með áskrift á efnisveitunni Brotkast.is.