Ísland hefur veitt þúsundum Úkraínumanna stöðu flóttamanna frá því að stríðið milli Rússland og Úkraínu hófst.
Nýjar upplýsingar sýna að hluti þeirra gæti hafa yfirgefið landið án þess að greiðslur til þeirra hafi verið stöðvaðar.
Vegna skorts á eftirliti missa stjórnvöld yfirsýn yfir þennan hóp eftir átta vikur sem gerir fólki mögulegt að snúa aftur til síns heima á meðan það heldur áfram að þiggja fjárhagsaðstoð frá íslenskum sveitarfélögum.
Auk þess hafa óskýr stjórnarvaldsfyrirmæli sem gefin voru út þann 4.mars 2022, um að veita Úkraínumönnum dvalarleyfi vegna fjöldaflótta, reynst stórgölluð miðað við úrskurð kærunefndar útlendingamála frá 24. október 2023 og ekki hægt að skilja hann öðruvísi en að fyrirmælin bjóði heim hættunni á alvarlegri misnotkun.
Óskýrt lagaumhverfi veitir sjálfkrafa rétt á vernd
Í úrskurði kærunefndar útlendingamála var sérstaklega bent á að ekki væri hægt að útiloka úkraínska einstaklinga frá því að teljast flóttamenn jafnvel þótt þeir hefðu búið í öðrum Evrópulöndum en Úkraínu þegar stríðið hófst.
Í úrskurði nefndarinnar segir:
„Kærandi er úkraínskur ríkisborgari sem hafði leyfi til dvalar í Póllandi við upphaf stríðsins. Með vísan til þess sem að framan greinir um óskýrt efnislegt inntak ákvörðunar ráðherra er ekki hægt að leggja mat á það hvaða áhrif umrædd dvöl í Póllandi hafi á það hvort kærandi teljist til þess hóps Úkraínumanna sem lagt hafi á flótta vegna stríðsins. Verður því að líta svo á að hann geti talist til hóps Úkraínumanna sem lögðu á flótta vegna innrásar Rússa í Úkraínu.“
Þar sem inntak ákvörðunar ráðherra var ekki nægjanlega skýrt var einstaklingur sem hafði búið í Póllandi í heilt ár áður en hann sótti um vernd á Íslandi engu að síður talinn til hóps flóttamanna frá Úkraínu.
Þetta þýðir að einstaklingar sem höfðu þegar fengið dvalarleyfi og búið við öryggi í Póllandi eða öðrum Evrópuríkjum fyrir innrás Rússa, geta samt sem áður fengið stöðu flóttamanns á Íslandi og þar með tilheyrandi fjárhagsaðstoð.
Nútíminn veit ekki til þess að reynt hafi á þetta lagaákvæði fyrir þá Úkraínumenn sem hafa búið annarsstaðar en í Póllandi.
Skortur á eftirliti tryggir greiðslur óháð búsetu
Frá árinu 2022 hefur íslenska ríkið veitt öllum Úkraínumönnum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna fjöldaflótta.
Þeir sem fá dvalarleyfi eiga undantekningalítið rétt á fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum.
Í Reykjavík geta einstaklingar fengið allt að 247.572 kr. á mánuði á meðan hjón og fólk í sambúð getur fengið allt að 396.115 kr. á mánuði, en fjárhagsaðstoðin er hæst í Reykjavík.
„Er það mat lögreglu að á bilinu 30-40% þeirra sem þiggja greiðslur séu í raun ekki lengur á Íslandi.“
Þessi upphæð þykir ekki endilega há á Íslandi en samsvarar um það bil fjórföldum meðallaunum í Úkraínu.
Þessar greiðslur voru veittar með takmörkuðu eftirliti en það hefur þó verið aukið, og eftir átta vikur fellur þjónusta Vinnumálastofnunar niður en allir þeir sem hafa skráð lögheimili í sveitarfélögum eiga rétt á fjárhagsaðstoð, uppfylli þeir skilyrði hennar, en yfirvöld hafa takmarkaða vitneskju um hvort fólk yfirgefur landið eður ei.
Þá er vonlítið að sveitarfélögum sé sérstaklega kunnugt um það.
Gróf misnotkun á íslenska kerfinu
Heimildamaður Nútímans úr stjórnkerfinu segir að grunur leiki á að mikill fjöldi fólks frá Úkraínu sé orðið meðvitað um þessa glufu í íslenska kerfinu og þannig sé eitthvað um það að óprúttnir aðilar séu að misnota kerfið.
Það sé gert með því að sækja um allt sem flóttamaður hefur rétt á samkvæmt íslenskum lögum en þegar fólk sækir um vernd hér á landi fær það fyrst húsaskjól sem Vinnumálastofnun útvegar en eftir að það hefur verið samþykkt verður fólkið að yfirgefa húsnæðið innan átta vikna.
Samkvæmt heimildarmanni eru þeir sem misnota kerfið á þennan hátt að nýta sér þessar átta vikur í því húsnæði sem útvegað er af Vinnumálastofnun og halda þeir svo af landi brott án þess að fjárhagsaðstoð falli úr gildi.
Ef síðan grunsemdir vakna hjá einu sveitarfélagi er víst leikur einn fyrir þessa einstaklinga að færa lögheimili sín yfir í annað sveitarfélag.
Lögregla telur að 30-40% séu farnir af landi brott
Nútíminn hefur fyrir því heimildir að lögregla hafi vitneskju um að stór hluti þeirra sem fengið hafa alþjóðlega vernd vegna fjöldaflótta frá Úkraínu dvelji ekki lengur hér á landi.
Samkvæmt heimildarmanni Nútímans er það mat lögreglu að á bilinu 30-40% þeirra sem þiggja greiðslur séu í raun ekki lengur á Íslandi.
Í grein RÚV frá 4.október 2024 segir að um fimm þúsund flóttamenn frá Úkraínu hafi komið til landsins frá upphafi stríðs.
Miðað við þessar tölur gætu á bilinu 1500 til 2000 Úkraínumenn verið farnir frá landinu en að tiltölulega stór hluti þeirra þiggi samt sem áður fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum.
Varla þarf að taka fram hversu stóru fjárhagslegu tapi þetta veldur fyrir íslenska skattgreiðendur.
Fjárhagslegt tap gríðarlegt
Miðað við þessar forsendur gætu greiðslur til einstaklinga sem ekki eru lengur á landinu numið tugum milljóna í hverjum mánuði.
Samkvæmt heimildum Nútímans hefur þetta kerfisvandamál verið þekkt innan stjórnkerfisins mánuðum saman en hvorki ríkisstjórn né sveitarstjórnir hafa gert neitt til að upplýsa almenning um ástandið.
Heimildarmaður Nútímans segir sveitarfélögin þó hafa brugðist við að einhverju leyti en bæði seint og illa.
Tilraunir gerðar til að bregðast við vandanum
Til að bregðast við óskilvirku eftirliti kynnti íslenska ríkið í nóvember 2024 nýja landamærastefnu en þar er lögð áhersla á betra eftirlit með för fólks til og frá landinu.
Óvíst er samt um hvort slíkt eftirlit muni koma til með að koma í veg fyrir áframhaldandi greiðslur til fólks sem ekki er lengur búsett hér á landi.
Í október sagði RÚV frá því að þáverandi dómsmálaráðherra útilokaði ekki að Ísland myndi hætta að veita hluta flóttafólks frá Úkraínu sjálfvirkt dvalarleyfi.
„Virðist sem yfirvöld hafi brugðist bæði seint og illa við og reynt að halda alvarleika málsins leyndum fyrir almenningi“
Þetta hefur Noregur gert með því að skilgreina vesturhluta Úkraínu sem öruggt svæði en í Noregi hefur mikill fjöldi flóttamanna valdið slíku álagi á sveitarfélög að stjórnvöld hafa gripið til þessara aðgerða.
Guðrún Hafsteinsdóttir sagði Ísland fylgjast með þróuninni í Evrópu og taka ákvarðanir í samræmi við nágrannaríkin en málið hefur ekki farið lengra.
Auðvelt að komast framhjá landamæraeftirliti
Í grein MBL.is frá janúar 2024 er fjallað um að að minnsta kosti tíu erlend flugfélög sem afhenda ekki íslenskum stjórnvöldum farþegalista þrátt fyrir lagaskyldu, sem hindrar skilvirkt landamæraeftirlit.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, varaði þá við því að brotamenn geti komist óséðir til landsins og gagnrýndi hann að stjórnvöld hefðu ekki brugðist við þrátt fyrir að hafa heimildir til að beita refsiúrræðum eða að svipta flugfélög lendingarleyfum.
Auðvelt væri fyrir aðila sem misnota fjárhagsaðstoð íslenska kerfisins að nýta sér þessi flugfélög til að forðast eftirlit.
Reynt að auka eftirlit
Nútíminn hafði samband við nokkur sveitarfélög og fékk staðfest að reynt hafi verið að bregðast við þessum vanda.
Samkvæmt upplýsingum Nútímans hefur Reykjanesbær, Reykjavík og Kópavogur í það minnsta byrjað að kalla í fólk sem þiggur fjárhagsaðstoð til að staðfesta veru þeirra á landinu.
Nútíminn fékk þó þær upplýsingar að oftast sé gefinn góður fyrirvari á slíkri mætingu þó svo að það geti verið misjafnt, en þessi fyrirvari geri það að verkum að auðvelt væri fyrir aðila sem dvelur erlendis að einfaldlega fljúga til landsins til að mæta á fundinn og svo sé hægt að yfirgefa landið aftur eftir það.
Þá hefur Nútíminn gögn undir höndum sem sýna samskipti milli ríkisstofnana þar sem verið er að ræða grun um slík svik.
Þó að ljóst sé að sveitarfélög séu að reyna að stoppa í götin er ljóst að gróf misnotkun á velferðarkerfinu hefur átt sér stað og er enn í gangi.
Einnig virðist sem yfirvöld hafi brugðist bæði seint og illa við og reynt að halda alvarleika málsins leyndum fyrir almenningi.