Kristinn Sigurjónsson, fyrrverandi lektor við Háskólann í Reykjavík, setti nýlega fram harða gagnrýni á lögfræðinginn Ingunni Agnesi Kro og framgöngu hennar á meðan MeToo bylgjan stóð sem hæst.
Gagnrýnina setti Kristinn fram í umræðum á spjallþræði Nútímans þar sem fjallað var um skoðunarpistil Kolbrúnar Bergþórsdóttur um sektina í MeToo byltingunni sem birtist þá í Morgunblaðinu.
Nútíminn ákvað að slá á þráðinn til Kristins til að spyrja hann nánar út í málið en hann segir framgöngu Ingunnar dæmi um hvernig háleit og góð markmið geti oft þróast í hættulegar áttir. Metoo-byltingin hafi jú hafist með þeim markmiðum að tryggja réttlæti og öryggi fyrir þolendur kynferðisbrota en hafi fljótlega snúist upp í andhverfu sína þar sem mikilvægum reglum réttarríkisins hafi verið kastað út með baðvatninu ef svo má segja.
Kristinn talar um hvernig byltingin hafi stökkbreyst og farið að taka á sig hættulegar myndir þannig að ásakanir einar og sér nægðu til að einstaklingar voru settir út í kuldann án þess að mál þeirra færu fyrir dómstóla eða nokkur sönnunargögn hefðu verið lögð fram.
„Karlmenn dæmdir sekir án sönnunargagna í MeToo-byltingunni“
Sem dæmi um slík mál má til dæmis nefna Vítalíumálið svokallaða en nýleg umfjöllun Mannlífs um símtal milli þeirra Loga Bergmanns og Arnars Grant þykir sýna þar allt aðra mynd en birtist almenningi í fjölmiðlum þegar byltingin stóð sem hæðst.
Í því máli var kappið slíkt að menn misstu bæði mannorð og starf vegna meintra lyga og fjárkúgunar sem aldrei fór þá leið sem íslensk lög gera ráð fyrir.
Má benda á það sem dæmi um þegar einstaklingum með ekkert gott í hyggju var gert mögulegt að misnota hreyfingu eins og MeToo með víðtækum stuðningi samfélagsins, sem fólst ekki síst í afstöðu háttsetts fólks í viðskiptalífinu eins og Kristinn gerir að umræðuefni sínu.
Saklaus uns sekt er sönnuð ekki fyrir viðskiptalífið
Kristinn bendir á að í gegnum alla MeToo byltinguna hafi nokkur atriði verið næstum öllum þeim málum sameiginleg. – Að oftast hafi ásakanirnar komið löngu eftir að brotin höfðu átt að hafa átt sér stað. Að fjölmiðlar hafi eiginlega aldrei farið ofan í það sem átti að hafa gerst, heldur hafi bara dugað að segja „Hann fór yfir mörk“ án þess að tekið væri fram hver þau væru né undir hvaða kringumstæðum það hefði verið. Fjölmiðlar hafi alltaf blásið í allra lúðra ef sökudólgurinn hafi átt að vera karlmaður, en algjörlega þagnað ef í ljós kom að um konu hefði væri að ræða. Að endingu sagði Kristinn steininn hafa tekið úr: „þegar lögfræðingur og stjórnarmaður í fjölda fyrirtækja studdi réttarmorð dómstóls götunnar,“ og vísaði þar í grein Ingunnar Agnesar Kro sem hún skrifaði í Lögmannablaðið í mars 2022.
Í þeirri grein lagði Ingunn til að stjórnir fyrirtækja myndu refsa starfsmönnum eingöngu byggt á ásökunum, án ákæru eða dómsniðurstöðu.
„Með því að leyfa stjórnum fyrirtækja að framkvæma refsingar út frá óstaðfestum ásökunum hafi verið komið á nýju valdaójafnvægi þar sem allir væru sekir uns sakleysi væri sannað“
Hún hélt því þar fram að grundvallarregla réttarkerfisins – saklaus uns sekt er sönnuð – ætti ekki endilega við í viðskiptalífinu og að fyrirtæki hafi þurft að taka ákvarðanir um brottvikningu starfsmanna út frá orðrómi og líkum fremur en staðreyndum.
„Þegar reglunni um sakleysi uns sekt er sönnuð er beitt, þá er það í refsimálum þar sem dómarar taka ákvarðanir út frá hagsmunum ríkisins. Byggja ákvarðanir sem teknar eru innan fyrirtækja á sömu hagsmunum?“ spurði Ingunn.
Ingunn sagði stjórnir fyrirtækja eingöngu bera ábyrgð á að fyrirtækjum farnaðist vel og að hagsmunir fyrirtækja skyldu settir ofar réttindum einstaklingsins til að verja sig og varpaði fram spurningunni:
„Er ég að sinna starfi mínu sem stjórnarmaður, ef ég bregst ekki við um leið og ég heyri orðróm um að brotið hafi verið gegn manneskju?“
Eitt sinn grunaður – alltaf sekur?
Kristinn segir að með þessu viðhorfi sé í raun verið að stimpla fólk sekt áður en það fær tækifæri til að verja sig.
Að ef ásökun kæmi fram þá ætti það eitt að nægja til að viðkomandi væri rekinn og missti mannorð sitt, jafnvel þótt síðar kæmi í ljós að ásökunin hafi verið röng eða ósönnuð. Slíkar hugmyndir séu í beinni andstöðu við grundvallargildi réttarríkisins að mati Kristins.
Með því að leyfa stjórnum fyrirtækja að framkvæma refsingar út frá óstaðfestum ásökunum hafi verið komið á nýju valdaójafnvægi þar sem allir væru sekir uns sakleysi væri sannað.
Og jafnvel þá hafi verið óvíst hvort viðkomandi gæti snúið aftur til starfa.
„Það þarf varla að taka fram hvers konar vald slík nálgun færði þeim sem höfðu í hyggju að kúga fé út úr fólki ef ekki þurfti meira til að svipta það lífsviðurværinu,“ segir Kristinn.
Tölfræði á brauðfótum
Ingunn reyndi að réttlæta þessa nálgun með því vitna í rannsóknir sem hún sagði sýna að 90-98% brotaþola segi satt og að aðeins 2-10% tilvika feli í sér rangar sakargiftir.
Ingunn var þar að vísa í tölfræði sem kom úr stórri rannsókn frá 2010 þar sem farið var yfir 136 nauðgunarmál yfir 10 ára tímabil og í þeirri rannsókn reyndust 8 mál vera falskar ásakanir.
Þetta þýðir að 5,9 prósent ásakana reyndust vera falskar en sá galli er á þessari rannsókn að þetta voru einungis málin þar sem þótti fullsannað að ásakanir reyndust falskar.
„Með sömu túlkun væri því auðvelt að halda því fram að 92 prósent þeirra sem sakaðir væru um nauðgun væru saklausir“
Ekki var tekið með í reikninginn þegar einstaklingur var sýknaður og ekki var heldur minnst á hversu mörg þessara mála enduðu með sakfellingu heldur einungis einblínt á í hversu mörgum tilfellum tókst að sanna að um væri að ræða upplognar ásakanir.
Sönnunarbyrði í slíkum málum er mjög þung, bæði þegar um ræðir ásökun um kynferðisbrot og að sama skapi þegar ræðir falska ásökun um samskonar brot.
Með sömu aðferðarfræði væri hægt að vísa til þess að í Bandaríkjunum endi 25 af hverjum 310 tilkynntum nauðgunum með sakfellingu, eða um átta prósent tilfella.
Með sömu túlkun væri því auðvelt að halda því fram að 92 prósent þeirra sem sakaðir væru um þennan hræðilega glæp væru saklausir en augljóst er að slíkar tölur endurspegli ekki raunveruleikann.
Það hlýtur því að teljast mjög vafasamt að fara fram á að svo mikilvægar ákvarðanir séu teknar út frá meingallaðri tölfræði.
Viðskiptaákvörðun eða mannorðsmorð?
Kristinn segir einnig að Ingunn Agnes Kro hafi reynti að gera lítið úr afleiðingum þess að einstaklingur missti starf sitt vegna ásakana og sagði það vera „viðskiptalega ákvörðun“ að reka grunaða einstaklinga, óháð því hvort þeir hafi gert eitthvað rangt.
„Nú, þá sit ég uppi með manneskju í fyrirtækinu mínu sem hefur að líkindum sýnt af sér gríðarlegan karakter- eða að minnsta kosti dómgreindarbrest. Er það ekki sama dómgreindin og viðkomandi notar við aðra ákvörðunartöku, meðal annars innan fyrirtækisins míns? Vil ég treysta á þessa dómgreind? Er þetta líka manneskja sem ég treysti fyrir því að byggja upp heilbrigða menningu innan fyrirtækisins? Menningu sem byggir á virðingu, trausti og jafnrétti?,“ skrifar Ingunn.
„Slík nálgun gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinga sem jafnvel væru saklausir en væru eftir sem áður fordæmdir af samfélaginu“
Kristinn segir hana horfa þarna algerlega framhjá einu grundvallaratriði: Að ef fyrirtæki reki einstakling vegna ásakana um alvarlegt brot, þá fylgir því ekki bara atvinnumissir, hann er ekki bara að missa einhverja vinnu, heldur væri mannorði hans þar með rústað og starfsferill viðkomandi oft ónýtur. Þannig væri dómgreindarbresturinn í raun stjórnandans sem aldrei þyrfti að svara fyrir það, né taka neinum afleiðingum af brottrekstrinum.
Slík nálgun gæti haft skelfilegar afleiðingar fyrir einstaklinga sem jafnvel væru saklausir en væru eftir sem áður fordæmdir af samfélaginu.
„Að missa vinnu af öðrum ástæðum eins og slæmri frammistöðu eða endurskipulagningu, er eitt – en að vera rekinn vegna óstaðfestra ásakana er gjörólíkt. Það er bara hreint og klárt mannorðsmorð sem líka eltir viðkomandi á veraldarvefnum út lífið,“ segir Kristinn.
Réttlætið verði að gilda fyrir alla
Kristinn tekur fram að Metoo-hreyfingin hafa vissulega byrjað með réttmætum áhyggjum af kynferðisbrotum og misbeitingu valds, en að hún hafi þróaðist fljótt yfir í réttarfarslegt óreiðuástand þar sem ásakanir einar dugðu til að eyðileggja líf fólks.
Hann segir að viðhorf eins og þau sem Ingunn Agnes Kro boðaði væru beinlínis hættuleg og græfu undan grundvallarréttindum einstaklinga, ekki síst þegar slíkt kæmi frá manneskju sem sæti í stjórn fjölda fyrirtækja og væri þar með þannig völd að hennar persónulegu skoðanir gætu haft mikil áhrif á afkomu fólks.
„Ef stjórnir fyrirtækja geta þannig hengt upp saklausar manneskjur á grundvelli sögusagna, erum við komin á mjög varasama braut. Réttlæti verður að vera í boði fyrir alla, ekki bara þá sem fjölmiðlar eða hagsmunahópar velja að styðja hverju sinni. Það verður aldrei, og hefur aldrei verið, ásættanlegt að refsa fólki án sönnunar, sama hversu mikil þrýstingur er frá samfélaginu,“ segir Kristinn að lokum.