Auglýsing

Kjarasamningar kennara í höfn

Mikið létti landanum þegar það barst um landið eins og ferskur þeyr að kennarastéttirnar og stjórnendur höfðu samið. Verkföll afboðuð.

Rætt var við nemendur í Borgarholtsskóla um málið í sjónvarpinu.

Kynjamunurinn kom skemmtilega á óvart, eða ekki.

Stelpurnar samviskusamar og fögnuðu að verkfalli var afstýrt. Þær geta haldið áfram í náminu. Engar tafir.

Strákarnir töluðu frá hjartanu, þeir hefðu viljað viku frí. Bara fúlir að kennarar sömdu. Einhver hætta á að þeir lentu aftur úr sögðu þeir.

„Peningunum er betur varið í kennara en stríðsrekstur og vopnakaup til að drepa aðra“

En svona er kynjamunurinn á þessum árum.

Það er þekkt, að alla grunnskólagönguna eru stúlkur samviskusamari gagnvart náminu og kannski fyrstu árin í framhaldsskóla.

Bara dásemd að hlusta á krakkana.

Launahækkanir sem borgin á ekki fyrir

Það var kostulegt að hlusta á borgarstjóra Reykjavíkurborgar, borgar sem er á hausnum, þegar spurt var um fjármögnun samningana.

Þau eiga nú ekki fyrir þessum hækkunum, sem verða nokkrir milljarðar á samningstímanum, en borgin er í viðræðum við ríkið um aðkomu þeirra.

Kostnaðarmat liggur ekki fyrir.

Þessi upphæð er sennilega aðeins ríflegri en Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra lofaði í stríðsrekstur Úkraínu.

Svo ríkinu er í lófa lagið að styrkja laun kennara sem því nemur og aðeins meir ef á þarf að halda.

Peningunum er betur varið í kennara en stríðsrekstur og vopnakaup til að drepa aðra.

Nú ef ríkið sveiflar ekki fram seðlunum má alltaf hagræða í rekstri borgarinnar.

Sama með hin sveitarfélögin eigi þau ekki fyrir launahækkunum.

Skyldi hagræðingin koma fram í leik- og grunnskólastarfinu?

Ekkert átt við texta kjarasamninganna

Þegar svona breiðfylking semur verða einkamál hverrar kennarastéttar út undan.

Hjá grunnskólakennurum mun álag vera svipað ef ekki meir þrátt fyrir þessa kjarasamninga. Næstu tvö ár.

Ekki verður nemendum fækkað í bekkjum þrátt fyrir mikla umræðu um það undanfarin ár.

Tískufyrirbærið teymiskennsla hefur tröllriðið skólasamfélaginu þar sem 30-50 nemendum er safnað í eitt rými með nokkra fullorðna sér til aðstoðar.

Kannski sjá menn eftir nokkur ár að þetta var ekki svo sniðug hugmynd rétt eins og hugmyndafræðin um skóla án aðgreiningar.

,,Okkar bestu menn komast sjaldnast til mannvirðinga í stjórnmálum. Þá skortir heimskuna.“

Stefnan eða hugmyndafræðin skóli án aðgreiningar, sem hefur mætt gífurlegri andstöðu eins og hugmyndafræðin er byggð upp í dag, er ekki viðruð í kjarasamningi í þeim tilgangi að minnka álag á kennara.

Ekki verður tekið á því næstu fjögur árin.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir ráðherra menntamála sagði stefnuna góða en vanti peninga í hana. En það er sveitarfélaganna sagði hún.

Vinnuumhverfi grunnskólakennara breytist ekkert frá því sem nú er og ekki verður tekið á því næstu fjögur árin, eða svo lengi sem kjarasamningur er í gildi.

Oft er tekið á slíku í kjarasamningagerð.

Hins vegar veifa kennarar hærri launatékka og það er gott.

Það er við hæfi að ljúka þessu með orðum Guðrúnar Helgadóttur; ,,Okkar bestu menn komast sjaldnast til mannvirðinga í stjórnmálum. Þá skortir heimskuna.“

Helga Dögg Sverrisdóttir, M.Sc. M.Ed. B.Ed.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing