Auglýsing

Keyptu heila blokk á Akureyri og leigja eingöngu 60 ára og eldri

Hjónin Stefán Þór Ingvason og Heiðbjört Þórarinsdóttir feta fremur ótroðnar slóðir er þau keyptu heila blokk og leigja íbúðir hennar eingöngu til fólks sem er 60 ára og eldri.

Allar íbúðirnar í nýrri íbúðablokk við Kjarnagötu 53 á Akureyri, sem voru auglýstar til leigu fyrir 60 ára og eldri, leigðust fljótt út.

Stefán segir eftirspurnina hafa verið svo mikla að hann hefði auðveldlega getað fyllt aðra blokk hefði hann átt hana til.

Blokkin er nýbygging með 16 íbúðum, 75-110 fm að stærð.

Stefán segist ekki hafa verið hissa á áhuganum, þar sem skortur sé á leiguhúsnæði fyrir eldri borgara.

„Mér varð ljóst að margir á mínum aldri og eldri vilja frekar búa í minni og þægilegri leiguíbúðum, þar sem þeir þurfa ekki að hugsa um viðhald eða húsfélagsmál,“ sagði hann við Akureyri.net.

Hann bendir einnig á að margir sem hafa selt stærri eignir kjósi að leigja í stað þess að kaupa, sérstaklega þar sem vextir á bankainnstæðum hafa verið hagstæðir.

Ætlaði ekki að kaupa heila blokk

Stefán, sem er 61 árs og fyrrverandi skipstjóri hjá Samherja, hefur ásamt eiginkonu sinni fjárfest í fasteignum á Akureyri undanfarin ár.

Upphaflega vildu þau tryggja húsnæði fyrir börnin sín fjögur en eignasafnið óx með tímanum.

„Ég var alltaf að fara á milli eigna með sláttuvélina í bílnum. Mig langaði til að einfalda hlutina,“ segir Stefán.

Upphaflega ætlaði hann aðeins að kaupa sex íbúðir í blokkinni, en þegar fleiri bættust við fór hann að velta fyrir sér kostnaði við alla blokkina, sem hann endaði svo á að kaupa í desember.

60 ára og eldri góðir leigjendur

Hugmyndin um að sérhæfa blokkina fyrir 60+ aldurshópinn kom frá vini hans og var einnig byggð á skorti á slíkum íbúðum.

Blokkin er vel útbúin fyrir eldri borgara, með lyftu, bílakjallara og svalalokunum.

Þó ekki allir íbúar séu orðnir 60 ára, er stefna Stefáns að halda sig við þennan aldurshóp.

„Eldri leigjendur flytja sjaldnar og eru traustir leigjendur,“ segir hann.

Hann nefnir einnig að hann þurfi ekki lengur að rúnta um með sláttuvélina, þar sem lóðin verður með gervigrasi.

Fleiri fasteignakaup möguleg

Þótt blokkin við Kjarnagötu sé stærsta fasteignafjárfesting hjónanna til þessa, útilokar Stefán ekki frekari kaup í framtíðinni.

„Það er skortur á leiguíbúðum fyrir 60 ára og eldri og margir vilja vandað leiguhúsnæði í stað þess að kaupa og reka sitt eigið,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing