Kynjafræðingurinn Þorsteinn V. Einarsson gagnrýnir þá sem hann kallar „kósífemínista“ og telur þá grafa undan femínískri baráttu á lúmskan hátt.
Í færslu á Facebook síðu Karlmennskunnar, sem hann hefur haldið úti í mörg ár, útskýrir Þorsteinn hvað felst í þessu hugtaki og hvers vegna hann telur þessa hópa jafnvel skaðlegri en hefðbundna andstæðinga femínisma.
Hverjir eru kósífemínistar?
Samkvæmt Þorsteini eru kósífemínistar einstaklingar sem lýsa yfir stuðningi við jafnréttisbaráttu og réttindabaráttu þolenda en gera það aðallega á yfirborðskenndan hátt.
Þeir sýna stuðning svo lengi sem það þjónar þeirra eigin hagsmunum en forðast að taka erfiða afstöðu eða styðja róttækari breytingar.
„Þeir skilja illa valdatengsl og sögu misréttis,“ skrifar Þorsteinn.
Hann bætir við að þessir einstaklingar greini sig oft frá róttækari femínistum með því að kalla sig „skynsamari“, en í raun séu þeir hluti af andspyrnunni gegn jafnrétti þar sem þeir veikja hreyfinguna innan frá.
Einkenni kósífemínista
Þorsteinn bendir á nokkur einkenni sem hann telur einkenna kósífemínista:
• Styðja femínisma almennt, en hætta því þegar umdeild mál koma upp.
• Forðast að taka frumkvæði í því að benda á misrétti nema það sé vinsælt.
• Reyna að miðla málum í stað þess að taka afstöðu, oft til að forðast neikvæða athygli.
• Samþykkja gagnrýnislaust orðræðu sem talar um femínista sem öfgahóp.
• Hafa forréttindi en leggja ekkert í hættu til að styðja jafnréttisbaráttuna.
• Njóta góðs af „femínískri“ ímynd án þess að leggja neitt raunverulegt af mörkum.
• Aðgreina sig frá róttækari femínistum og vilja frekar vera „hófstilltir“.
• Telja sig fórnfúsar hetjur sem konur ættu að þakka fyrir stuðning sinn.
• Trúa því að þeir geri gagn þegar þeir í raun grafa undan baráttunni.
Í færslunni undirstrikar Þorsteinn að slíkt viðhorf geti haft skaðleg áhrif á jafnréttishreyfinguna, þar sem það veikir hana innan frá og dregur úr virkni þeirra sem raunverulega vilja sjá breytingar.
Færslu Þorsteins er hægt að sjá í heild sinni hér fyrir neðan: