Auglýsing

Fjölmiðlar hunsa sögulegt samhengi Úkraínustríðsins og forðast að ræða báðar hliðar þess

Sagnfræðingurinn Tjörvi Schiöth var gestur í Spjallinu hjá Frosta Logasyni, þar sem hann gagnrýndi harðlega hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um stríðið í Úkraínu.

Hann segir að almenningi sé boðið upp á einhliða frásögn sem byggi á rangfærslum og yfirborðskenndum útskýringum.

Að hans mati hafa sögulegar staðreyndir, sem skipta sköpum til að skilja ástæður stríðsins, verið kerfisbundið hunsaðar af fjölmiðlum og evrópskum stjórnmálamönnum.

Þeir sem benda á sögulegt samhengi úthrópaðir

Í upphafi þáttarins bendir Frosti á að þeir sem vilja taka sögulegt samhengi stríðsins með í reikninginn séu oft kallaðir „Putinistar“ eða „Putin-sleikjur“.

Hann nefnir dæmi um fyrrverandi forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, sem talaði um mikilvægi þess að skilja geópólitíska hagsmuni stórvelda og þörfina fyrir samningaviðræður.

„Það hefur verið reynt að stilla þessu þannig upp að Rússar hafi ætlað sér að leggja undir sig alla Úkraínu og jafnvel meira, en það passar einfaldlega ekki við þær heimildir sem við höfum“

Hann hafi strax verið úthrópaður Rússa-sleikja og margt verra fyrir að taka þessa nálgun.

Tjörvi tekur undir þetta og segir að fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafi skapað umhverfi þar sem öll umræða um forsendur stríðsins sé kæfð.

Hann segir að staðreyndir um pólitíska þróun Úkraínu og hlutverk Vesturlanda í aðdraganda stríðsins séu vel skrásettar í greinum, bókum og fræðiritum, en þær hafi verið „memory-holed“ – þ.e. vísvitandi hunsaðar eða grafnar.

„Við sem bendum á þessar staðreyndir erum ekki stuðningsmenn Pútíns. Ég er sjálfur vinstrisinnaður og alþjóðasinnaður, öfugt við stefnu Pútíns, sem er íhaldssamur þjóðernissinni. En það er grundvallaratriði að skilja sögulega atburði ef maður vill leysa vandamál,“ segir Tjörvi.

Friðarviðræður stöðvaðar af Vesturlöndum

Í viðtalinu fer Tjörvi yfir það hvernig stríðið þróaðist á fyrstu mánuðum þess og vísar í heimildir sem sýni að Rússar hafi í raun verið reiðubúnir til samninga skömmu eftir innrásina í febrúar 2022.

Samkvæmt upplýsingum sem komu síðar fram í New York Times og öðrum fjölmiðlum, höfðu Rússar og Úkraínumenn setið við samningaborðið í mars og apríl 2022, þar sem meginmarkmið Rússa var að tryggja hlutleysi Úkraínu – að hún gengi ekki í NATO.

Tjörvi bendir á að þetta sé í andstöðu við þá mynd sem fjölmiðlar hafa dregið upp, þar sem Rússar séu sagðir hafa stefnt á allsherjaryfirráð yfir Úkraínu líkt og Hitler í Evrópu.

„Það hefur verið reynt að stilla þessu þannig upp að Rússar hafi ætlað sér að leggja undir sig alla Úkraínu og jafnvel meira, en það passar einfaldlega ekki við þær heimildir sem við höfum,“ segir hann.

Hann vísar í frásagnir frá úkraínskum samningamönnum á þeim tíma, þar á meðal David Arakhamia og Oleksiy Arestovych, sem staðfestu í viðtölum að Rússar hefðu sýnt vilja til að semja en að það hefði ekki gengið eftir.

Boris Johnson kom í veg fyrir samkomulag

Tjörvi bendir á að samkvæmt úkraínsku miðlunum Ukrainska Pravda og Strana.ua, hafi friðarviðræður verið komnar á það stig að úkraínsk stjórnvöld hafi verið tilbúin til að skrifa undir samning.

Hins vegar hafi Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, komið í skyndiheimsókn til Kænugarðs þann 9. apríl 2022 með skýr skilaboð frá Bandaríkjunum: Úkraína ætti ekki að semja heldur halda stríðinu áfram með stuðningi Vesturlanda.

„Ef við viljum leysa þetta vandamál, þurfum við að ræða það í heild sinni“

„Þetta er ekki samsæriskenning, þetta var fjallað um í úkraínskum fjölmiðlum á sínum tíma,“ segir Tjörvi. „Það liggur fyrir að leiðtogar Vesturlanda, sérstaklega í Washington og London, vildu ekki að þessu stríði lyki með samkomulagi heldur með fullnaðarsigri á vígvellinum.“

Frosti bætir við að það virðist vera algjör afneitun á þessum staðreyndum í umræðunni á Vesturlöndum og spyr hvort það sé raunhæft að íslensk stjórnvöld hafi tekið upplýsta afstöðu í málinu þegar mikilvægir þættir í sögulegu samhengi hafa verið hunsaðir.

Skilningur á aðdraganda stríðsins nauðsynlegur

Í lok viðtalsins ítrekar Tjörvi að það sé ekki hægt að finna lausn á deilum nema að skilja þær.

Hann segir að nálgun Vesturlanda, þar sem Rússum er einhliða kennt um stíðið án þess að ræða ástæður þess, sé einföldun sem gagnist ekki neinum nema þeim sem vilja að átökin haldi áfram.

„Ef við viljum leysa þetta vandamál, þurfum við að ræða það í heild sinni – ekki bara þann hluta sem hentar pólitískri orðræðu ákveðinna afla. Annars erum við ekki að tala um frið, heldur bara áframhaldandi stríð,“ segir Tjörvi.

Hægt er að horfa á brot úr þættinum hér fyrir neðan en ef þú vilt horfa á allan þáttinn geturðu tryggt þér áskrift að Brotkast.is hér.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing