Fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Einar Þorsteinsson, ræddi nýlega við Kiddu Svarfdal í hlaðvarpinu Fullorðins um reynslu sína af borgarstjórastarfinu, launakjör og vinnuálagið sem fylgir embættinu.
Einar, sem gegndi embættinu í um ár eftir feril í fjölmiðlum og stjórnmálafræði, lagði áherslu á að starfið væri mjög krefjandi og tæki óhjákvæmilega allan tíma þess sem gegnir því.
Hann benti á að launakjör borgarstjóra séu hönnuð til að tryggja að engin þörf sé á að sinna öðru starfi samhliða því vinnuálagið sé slíkt að í raun sé það útilokað ætli aðilinn að sinna því vel.
„Ef þú ætlar að sinna borgarstjórastarfinu almennilega, þá verðurðu að helga því alla þína starfsorku,“ sagði Einar. „Þetta er vinna sem nær yfir nánast allar helgar, og ég var oftast fyrstur mættur og farinn síðastur. Það eru fundir stanslaust, og borgarstjórinn þarf að vera til staðar til að taka á stóru málunum.“
Launakjör borgarstjóra – og viðbótarlaun nýs borgarstjóra
Í viðtalinu kom einnig fram að nýr borgarstjóri fær aukaleg laun fyrir að vera jafnframt formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Borgarstjórastarfið er þannig að þú getur ekki verið í einhverju 50% starfi við hliðina án þess að annað hvort það eða borgarstjórastarfið líði fyrir það.“
Hann sagði að borgarstjórinn fengi „milljón ofan á borgarstjóralaunin“ fyrir það hlutverk og tók fram að það væri töluverð vinna í sjálfu sér.
Kidda spurði hvernig væri hægt að gegna bæði störfunum samtímis, en Einar lýsti efasemdum um að slíkt væri raunhæft.
„Ég myndi ekki gera það sjálfur,“ sagði hann ákveðinn. „Borgarstjórastarfið er þannig að þú getur ekki verið í einhverju 50% starfi við hliðina án þess að annað hvort það eða borgarstjórastarfið líði fyrir það.“
Hann lagði áherslu á að starfið fæli í sér að vinna með langtímamarkmið í huga, þar sem mikilvæg verkefni og kerfisbreytingar væru þunglamalegar og tækju ár eða áratugi að skila árangri. „Ef þú ætlar að gera þetta vel, þarftu að nýta hverja einustu mínútu í starfið. Það er ekki tími til annars.“
Starf borgarstjóra jafnerfitt og ráðherra – en án aðstoðarmanna
Einar nefndi einnig að starf borgarstjóra sé jafnvel meira krefjandi en ráðherraembætti.
„Ég hef heyrt sagt að dagskrá borgarstjóra sé jafnvel þéttari en hjá ráðherrum,“ sagði hann og bætti við að borgarstjórinn hafi enga aðstoðarmenn eða sérfræðinga til að dreifa vinnuálaginu á, eins og ráðherrar hafa.
Þegar rætt var um aðgang borgarstjóra að bílstjóra útskýrði hann að bílstjóri borgarstjóra væri í raun sendill fyrir borgina og gegndi mikilvægu hlutverki í skipulagningu dagsins.
„Þegar ég var á löngum fundum var hann að sinna öðrum verkefnum fyrir borgina – ekki bara keyra mig á milli staða,“ sagði hann.
Hægt er að sjá brot úr viðtalinu hér fyrir neðan en ef þú vilt horfa á allan þáttinn geturðu tryggt þér aðgang að Brotkast.is hér.