Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, er á móti nýju frumvarpi sem leyfir sölu á áfengi í verslunum. Silja Dögg birtir grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hún segir hlutverk stjórnmálamanna að tryggja almannahag og öryggi borgaranna – bæta samfélagið.
Að mínu mati væri frjáls sala áfengis í matvöruverslunum EKKI framfaraspor fyrir íslenska þjóð. […]En ábatinn af sölu og framleiðslu á áfengi er samfélaginu afar dýrkeyptur. Það er einkum þrennt sem leiðir til þess að áfengi veldur svo miklu líkamlegu, andlegu og félagslegu tjóni: 1) eitrun í líkamanum, 2) víma og 3) ánetjun (fíkn).
Silja segir tengsl milli áfengisvímu og skaða skýr og greinilega.
Sérstaklega hvað varðar ofbeldi, umferðarslys eða önnur slys. Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni mátti á árinu 2000 rekja 4,0 prósent allra dauðsfalla og örorku í heiminum til áfengis („The Global Burden of Disease“). Áfengi reyndist því fimmti skaðlegasti áhættuþátturinn af 26 sem kannaðir voru. Áfengi veldur álíka miklu heilsutjóni og tóbak.
Skiptar skoðanir eru um frumvarpið innan þingflokki Framsóknarflokksins en Karl Garðarsson, félagi Silju í Framsókn, hefur lýst yfir að hann sé fylgjandi frumvarpinu.