Bandaríski verslunarrisinn Costco, sem vinnur nú að því að opna verslun hér á landi, lét hringja í alla sem keyptu skemmdar ferskjur, nektarínur og plómur á dögunum og innkalla þannig ávextina ásamt því að biðjast afsökunar. Það væri ekki hægt öðruvísi en að Costco héldi skrá um hvað hver og einn kaupir í verslununum en hvernig er það mögulegt? Í fréttaskýringu Mbl.is um Costco-málið kom þetta fram:
Viðskiptamódelið sem fyrirtækið byggir á er nokkuð ólíkt því sem við þekkjum hér á landi. Í fyrsta lagi þurfa viðskiptavinir að vera í viðskiptaklúbb Costco, en slíkt kostar frá um sex þúsund krónum upp í 13 þúsund krónur í Bandaríkjunum. Þá er markhópur fyrirtækisins stærri fjölskyldur eða fyrirtæki, enda eru vörur yfirleitt í stærri pakningum en í öðrum búðum. Á móti kemur að verslunin nær að halda verði lágu og t.a.m. er opinber stefna félagsins að hafa álag á vörur aðeins 14%.
Þetta gerir Costco kleift að halda skrá um öll innkaup viðskiptavina sinna, sem fyrirtækið gerir, og nýtir meðal annars til að láta fólk vita þegar innkalla þarf vörur. Í samtali við Huffington Post sagði Craig Wilson, aðstoðargæðastjóri hjá Costco, að fyrirtækið viti nákvæmlega hvað allir kaupa á hverjum einasta degi.
Ef það er eitthvað að vöru sem við seljum, hvort sem það er nautahakk, ferskjur, sokkar eða dekk, þá höfum við samband við viðkomandi. Þetta er allt skráð.
Nútíminn hafði samband við Persónuvernd sem hafði ekki fjallað sérstaklega um málefni Costco.