Virkir notendur samfélagsmiðilsins Twitter á Íslandi eru í kringum tíu þúsund, samkvæmt upplýsingum sem Nútíminn hefur undir höndum. Íslendingar skrifuðu um 378 þúsund tíst í júlí en heimsbyggðin skrifaði um 10 milljarð tíst í mánuðinum. Íslendingar báru því ábyrgð á 0,004% af heildartístmagni heimsins í júlí.
Þetta eru þó aðeins virkir notendur, gera má ráð fyrir að fleiri hafi skráð sig á Twitter án þess að taka virkan þátt.
Á sama tíma í fyrra voru virkir notendur Twitter á Íslandi um 5.700. Það er því ljóst að Twitter hefur verið í talsverðri sókn á Íslandi undanfarin misseri þó hann eigi langt í land með að ná vinsældum Facebook. Íslenskir notendur Facebook eru um 220 þúsund, eða um 70% þjóðarinnar, samkvæmt nýjum tölum frá markaðsrannsóknarfyrirtækinu GlobalWebIndex.
Til marks um auknar vinsældir Twitter þá settu landsmenn tístmet yfir Eurovision í maí. 16.035 voru merkt hashtagginu #12stig, sem er um 35% aukning frá árinu á undan. Þá voru þátttakendur í umræðunni alls 3.364, sem eru 85% fleiri en árið á undan, samkvæmt boggi Vodafone.