Verkfall tónlistarkennara hófst á miðvikudag en það tekur til um 500 kennara í Félagi tónlistarkennara. 93 prósent þeirra samþykktu verkfallsboðun.
Nýr kjarasamningur verður kynntur á morgun, samkvæmt tölvupósti sem Björg Óskarsdóttir sendi fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) síðdegis í dag.
Í tölvupóstinum kemur einnig fram að félagsmönnum Félags tónlistarskólakennara (FT) hafi borist bréf frá félagsmanni FT þar sem þeir eru hvattir til að fella samninginn og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.
„Til að kóróna verknaðinn er síðan birtur nafnalisti yfir tónlistarkennara í FÍH til að skerpa hverja eigi að sækja á,“ segir stjórn FÍH. „Þetta eru að okkar mati algjörlega siðlaus tilmæli og jafnvel ólögleg en bera því miður með sér að umræðan er ekki í nógu góðum farvegi.“
Nútíminn hefur umrætt bréf undir höndum og það má lesa í heild hér fyrir neðan. Þar eru félagsmenn FT hvattir til þess að reyna að hafa áhrif á atkvæði sem flestra í FÍH:
Við þurfum að standa saman, hafa samband við það fólk sem við þekkjum og/eða treystum okkur til að tala við og reyna að sannfæra vini okkar og kollega hjá FÍH um að samþykkja ekki þennan samning. Okkur öllum til hagsbóta.
—
Bréfið í heild má lesa hér:
Góðan daginn kæru félagsmenn FT
Við stöndum nú í ströngu, eins og öll okkar vita, og ríður nú á að sína samstöðu okkar og styrk í verki. Félagar okkar, kollegar og vinir í FÍH standa nú frammi fyrir því vali að samþykkja eða fella nýundirritaðan samning sem samningsnefnd þeirra undirritaði. Þeir hafa verið boðaðir til fundar í Rauðagerði á laugardaginn 25.10. kl.11 Þar skilst undirritaðri að eigi að fara fram einskonar atkvæðagreiðsla um fyrrnefndan samning (spurning hvernig sú atkvæðagreiðsla kemur til með að fara fram?, handaupprétting… eða).
Ég hvet ykkur, kæru vinir, til þess að mynda ykkur skoðun á málinu og skoða eftirfarandi vefslóð:
http://felagsmenn.fih.is/default.aspx?PageID=146&ID=399&Type=1
Á heimasíðu FIH, þann 24.10.2014, er einnig listi yfir félagsmenn. Hann er ansi langur og á honum er bæði látið fólk og fólk sem er tví-, þrí- … bókað.
Spurning hverjir af þeim hafa athvæðisrétt á laugardaginn um það að samþykkja eða fella „Samnings-leysuna“ þeirra!
Hér fyrir neðan er listi sem undirrituð hefur vissu fyrir því að séu starfandi tónlistarkennarar í FÍH og ættu því að láta sig málið varða. Hvet ég alla sem fá þennan póst frá mér til þess að senda hann áfram á aðra félagsmenn FT og setja hann inn á Facebook, o.fl. …(undirrituð viðurkennir vanmátt sinn gagnvart Fésbókarsíðunni).
Við þurfum að standa saman, hafa samband við það fólk sem við þekkjum og/eða treystum okkur til að tala við og reyna að sannfæra vini okkar og kollega hjá FÍH um að samþykkja ekki þennan samning. Okkur öllum til hagsbóta.
Vinsamlegast reynið að hafa áhrif á athvæði sem flestra í FÍH og áframsendið á félaga í FT
Baráttukveðja,
Helga Aðalheiður”