Þorp og smábæir í Bretlandi, sem hafa krá innan sinna marka, eru félagslega sterkari og atvinnulífið er öflugra þar en í bæjarfélögum sem eru án þeirra. Þetta er niðurstaða rannsóknar dr. Ignazio Cabras, hagfræðingi sem starfar hjá háskólunum í Northumbria og York. Breska dagblaðið The Telegraph greindi frá niðurstöðunum.
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, bloggar um niðurstöðurnar og segir þær athyglisverðar.
Bæði út frá áfengispólitísku sjónarhorni, en einnig byggðarlegu. Fræðimenn hafa bent á að það sé ekki síst félagslegi þátturinn sem ráði miklu um framvindu bæjarfélaga á landsbyggðinni. Þar sem vistin er daufleg una íbúarnir sér verr. Svar okkar hefur þá ekki síst verið að tengja hinar minni byggðir, til þess að skapa forsendur fyrir eflingu hins félagslega hluta.
Rannsóknin stóð í eitt og hálft ár og náði til um 2.800 smábæja. Þar sem krár fyrirfundust voru íbúarnir 40 til 50 prósent líklegri til þess að taka þátt í bæjarhátíðum, fara á íþróttaleiki og sækja menningarviðburði. Þá var atvinnulífið var öflugra.
„Þessi breska könnun bregður eiginlega nýju ljósi á þetta mál. Kráin, pöbbinn, er ekki lengur aðeins hluti af bæjarbragnum; partur af því mósíaki sem samfélag manna er. Hann getur verið forsenda fyrir því að búa til eftirsóknarverðan bæjarbrag,“ segir Einar.
Fylgdu Nútímanum á Facebook og þú missir ekki af einni einustu frétt.