Auglýsing

Örskýring: Stýrivextir Seðlabankans lækka

Um hvað snýst málið?

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur lækkað stýrivexti um 0,25 prósent — úr 6% niður í 5,75%.

Hvað eru stýrivextir?

Á Íslandi eru stýrivextir þeir vextir sem Seðlabankinn leggur á lán til banka og annarra lánastofnana. Með því að lækka stýrivexti veitir Seðlabankinn lánafyrirtækjum svigrúm til að gera slíkt hið sama gagnvart viðskiptavinum sínum.

Stýrivextir eru eitt af stjórntækjum Seðlabanka Íslands í peningamálum og er þeim ætlað að hafa áhrif á aðra vexti í landinu. Með öðrum vöxtum er t.d. átt við vexti banka og annarra fjármálafyrirtækja en þeir kallast markaðsvextir

Tilgangurinn með breytingu stýrivaxta er oftast sá að stuðla að stöðugleika hagkerfis með því að draga úr sveiflum í verðbólgu eða styrkja gengi gjaldmiðils.

Með hækkun stýrivaxta seðlabanka getur verið reynt að hægja á efnahagslífinu, til að berjast gegn verðbólgu, eða að hækka gengi viðkomandi gjaldmiðils. Með lækkun stýrivaxta er á sama hátt reynt að örva efnahagslífið eða lækka gengi viðkomandi gjaldmiðils.

Hvað gerist næst?

Á vef Landsbankans kemur fram að bankarnir geti breytt vöxtum sínum á innlánum og útlánum þrisvar í mánuði, 1. 11. og 21. dag mánaðar. Helsti hvati vaxtabreytinga bankanna er breyting á stýrivöxtum Seðlabankans.

Stýrivextir höfðu staðið óbreyttir í um tvö ár þangað til þeir lækkuðu í dag. Það kemur fljótlega í ljós hvort breytingar verða á vöxtum t.d. bankanna.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing