Philippe Couillard, forsætisráðherra Quebec í Kanada, var gagnrýndur harðlega á þinginu þar ytra í gær fyrir að tala ensku en ekki frönsku á ráðstefnu á Íslandi.
Couillard sat Arctic Circle ráðstefnuna í Reykjavík á dögunum í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta. Í ræðu sinni gerði hann grein fyrir Plan Nord, áætlun yfirvalda í Quebec um nýtingu náttúruauðlinda í þeim hluta fylkisins sem er norðan við 49. breiddargráðu.
Québec er stærsta fylki Kanada. Aðaltungumál Quebec og eina opinbera tungumálið er franska. Quebec er eina fylkið þar sem enska er ekki opinbert tungumál, og aðeins eitt af þremur fylkjum þar sem að franska er opinbert tungumál — hin tvö eru New Brunswick og Manitoba.
Í frétt á vef National Post kemur fram að ekki hafi verið í boði að túlka frönsku yfir á ensku jafn óðum. Ræðumenn frá Frakklandi, Íslandi og Noregi töluðu allir ensku.
Couillard sagði François Legault, kollega sinn vera að gera úlfalda úr mýflugu. „Ég skora á hann að fara á fjármálaráðstefnur í London eða New York og kynna fjárhagsáætlun sína á frönsku. Sjáum hvernig það gengur.“
Couillard sagði í ræðu sinni hér á landi að samvinna við Ísland geti gagnast við framkvæmd nýrrar áætlunar í orku- og umhverfismálum í norðurhéruðum fylkisins. Samvinna menntastofnana á Íslandi og í Quebec geti komið að notum.
Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.