„Ég skil ekki hvernig í andskotanum hann náði þessu. Ég skrapp bara í kaffi!“ segir sjónvarpskonan Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir.
Mikla athygli vakti þegar Sigríður Elva náði loksins að hefna sín á Loga Bergmann í september en sá síðarnefndi hefur hrekkt hana á vinnustað þeirra á 365 með marvíslegum hætti síðustu ár.
Logi náði að hefna sín á ný í dag þegar hann komst í tölvu Sigríðar og lét til sín taka.
Hann sendi út fjölmargar vinabeiðnir í nafni Sigríðar, meðal annars á spákonur, fólk sem býður upp á heilun og dáleiðslu. Þá sendi hann vinabeiðnir á einhvers konar brauðtertuþjónustu, álfagallerí, húðflúrstofu og fatasölu.
Mynd sem Sigríður birti af vinabeiðnaflóðinu má sjá hér fyrir neðan:
Þá stillti hann tölvupóstinn hennar þannig að þessi skilaboð bárust þeim sem reyndu að senda henni póst:
Ekki nóg með það. Sigríður birti skýr skilaboð til á vegg sínum: „Ég veit hvar þú átt heima, Logi“. Þegar hún brá sér frá í nokkrar sekúndur komst Logi í tölvuna hennar á ný og breytti skilaboðunum í: „Logi ég elska þig“.
Spennandi verður að sjá hvort og þá hvernig Sigríður nær sér niður á Loga, sem er alræmdur hrekkjalómur og gaf til dæmis út Handbók hrekkjalómsins árið 2012. Þá flytur hann fyrirlestra um vinnustaðargrín þar sem Sigríði bregður nokkuð oft fyrir.