15 árum eftir að plata Creed, Human Clay, seldist í 11 milljón eintökum, er Scott Stapp ekki í góðum málum.
Scott Stapp, söngvari hljómsveitarinnar Creed, er blankur og heimilislaus. Hann birti myndband á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hann sakar plötuútgáfu, skattinn og ónefnda menn um að ræna sig.
Myndbandið var tekið upp inni á hótelherbergi en hann segist hafa þurft að sofa í bílnum sínum undanfarið. Myndbandið má sé hér fyrir neðan.
Stapp byrjar á því að segja aðdáendum sínum að hann sé ekki undir áhrifum áfengis eða eiturlyfja.
Þið eruð eflaust búin að heyra slúður og bull um mig síðustu vikur. Fyrst var ég sagður dáinn, sem var augljóslega ekki satt. Svo var ég sagður hafa fallið og væri því kominn í meðferð. Þetta eru lygar. Ég er eins edrú og hægt er að vera.
Stapp segir að fjármál sín hafi verið endurskoðuð á dögunum og að þá hafi ýmislegt komið í ljós.
„Mikið af peningum var stolið og höfundaréttargreiðslur hafa ekki borist,“ sagði hann. Hann sagði svo að ónefndir menn hafi hreinsað útaf af bankareikningi sínum og að hann sé nú blankur og heimilislaus.
Forvitnilegt er að skoða myndbandið í ljósi þess að nokkrir dagar eru síðan Jaclyn Stapp, eiginkona hans, sótti um skilnað.
Í skilnaðargögnunum segir hún að Stapp hafi horfið af heimili sínu í október og ekki sést síðan. Þá segir hún söngvarann vera að háðan amfetamíni, sterum og fleiri efnum, að hann sé illa haldinn af vænisýki og hafi hótað að drepa sig og skaða fjölskyldu sína.
Rolling Stone vitnar í vefsíðuna TMZ sem segir að skilnaðargögnin innihaldi fjölmörg sms-skilaboð frá Stapp til eiginkonu sinnar þar sem hann segir meðal annars að CIA sé á bakvið AA-samtökin og að Guð sé að reyna að segja honum eitthvað um Palm Springs og Nashville.
https://www.youtube.com/watch?v=J1m5v8FnH50